Jón Bjarni Steinsson, veitingamaður og viðburðahaldari, segir Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, hafa logið um að stjórnvöld myndu koma veitingafólki til bjargar og aðstoða við að halda rekstri á floti í gegnum nýjustu bylgju kórónuveirufaraldursins.
Þetta kemur fram í pistli Jóns Bjarna á vef Vísi.is í gær.
Að sögn Jón Bjarna segir öll þau úrræði sem staðið hafi rekstraraðilum til boða séu útrunnin. Nóvember hafi verið síðasti mánuður til viðspyrnustyrks og aðrar aðgerðir þegar hafi verið runnar út.
„Bjarni Benediktsson laug – fjárlög voru afgreidd í dag og þingmenn komnir í „langþráð“ jólafrí fram til 17 janúar. Á meðan geta þeir sem treystu því að einhver aðstoð væri á leiðinni bara étið það sem úti frýs,“ segir Jón Bjarni meðal annars í pistli sínum.
Hann segir hugsanlegar afleiðingar af sinnuleysi stjórnvalda geta verið margvíslegar.
„Það eru allir löngu búnir að hagræða af sér neðri endann. Næsta skref er að þeir sem verst eru staddir fari að taka fram hjá sjóði og borga fólki svart,“ segir Jón Bjarni og bendir á að það sé sorgleg þróun.
Að sögn Jóns Bjarna eru verstu mánuðir ársins í veitingarekstri framundan og skilaboðin frá yfirvöldum séu mjög skýr, „þeim er einfaldlega skítsama!!!“
Þá haldi þau kannski að málin leysist með stórri gjaldþrotahrinu á vormánuðum. Jón Bjarni segir það dýrt spaug ef ekkert verði gert.
„Kæra Ríkisstjórn:
Plís..... Ekki gera ekki neitt,“ segir Jón Bjarni að lokum.
Lesa má pistilinn í heild sinni hér.