Jólatvist úr sjávarfangi og fylltur lambahryggur sem matgæðingarnir elska

Í tilefni þess að jólin nálgast óðum og aðventan er brostin á, var tvíeykið, Viktor Örn Andrésson matreiðslumeistari og landsliðskokkur og Berglind Guðmundsdóttir matar- og sælkerabloggari hjá Gulur, rauður, grænn og salt fengið til leika listir sínar saman í eldhúsinu og töfra fram þriggja rétta hátíðarkvöldverð í þættinum Matur og Heimili á Hringbraut. Það er sannkölluð jólastemningu yfir hátíðarkvöldverðinum sem þau framreiddu að hjartans list.

Færði nýja sælkera steik upp á fat

Viktor Örn er einn metnaðarfyllsti íslenski matreiðslumaðurinn og hefur í gegnum árin prófað sig áfram með djarfar nýjungar. Í dag rekur Viktor Örn Sælkerabúðina ásamt félaga sínum Hinriki Erni Lárussyni. Viktor eldaði úrbeinaðan lambahrygg og brá sér út af klassískum jólahefðum og „færði nýja sælkera steik upp á fat.“ Lykillinn að velgengni í eldamennsku segir Viktor vera spennandi meðlæti þar sem brögðin fái að njóta sín með aðalréttinum. Viktor bauð uppá dýrindis kartöflumauk, hungansgljáðar regnboga gulrætur og rauðvínssósu með fyllta lambahryggnum.

Jólatvist úr sjávarfangi í forrétt

Viktor Örn tók jafnframt snúning á forrétti sem tekur örskamma stund að framreiða. Er hér um að ræða tvist úr sjávarfangi, risarækjum og hörpuskel með skemmtilegri útfærslu. „Framreiðsla réttanna skiptir líka miklu máli og ég legg mikið upp úr því að bera matinn fallega fram á borð, það gleður bæði auga og munn,“segir landsliðskokkurinn Viktor Örn.

Hér deilir Viktor með lesendum uppskriftunum af hátíðarkvöldverði, Jólatvist úr sjávarfangi, risarækjum og hörpuskel og fylltum lambahrygg og meðlæti þar sem magnið er miðað við fjóra fullorðna.

Hægt er að horfa á þáttinn hér: Matur & Heimili

Pönnusteiktar risarækjur og hörpuskel með mangó og sesam-majónesi

M&H rækjur og Hörpuskel Viktor Örn

Hörpuskelin er borin fram með fallegum hætti og diskurinn er frá Bako Ísberg.

2-3 risarækjur per man

2-3 hörpuskeljar per mann

sítróna

olía

salt og pipar

Mangó salsa

1 stk. ferskt mangó skorið í litla teninga.

½ chilli fínt saxað

2-3 msk. ferskur kóriander eða graslaukur fínt saxaður

3-4 msk. mangó chutney úr krukku

Hörpuskel og risarækja er sett á sitthvort grillspjótið. Olíu hellt yfir og kryddað til með salti. Hitið pönnuna vel og steikið spjótinn.

Best er að elda hörpuskelina 90% af eldunartímanum á annarri hliðinni og svo snúa rétt til að loka hinum megin, þá fáum við fallega gyllta steikingu á aðra hliðina. Risarækjurnar eru steikar í um það bil 3 mínútur á hvorri hlið.

Takið svo spjótin af pönnuni og á bakka, kreystið smá sítrónusafa yfir. Mangó salsa sett ofan á. Berið fram á fallegum disk og skreytið. Það passar mjög vel að hafa gott majónes eða aioli með.

M&H Rækjur Viktor örn

Hér eru rækjurnar framreiddar á fallegum ílöngum disk á Craft stellinu frá Bako Ísberg.

M&H - LambahryggurinnViktor Örn

Pestó fylltur lambahryggur með parmesan og hvítlauk

1 stk lambahryggur ( úrbeinaður)

5-6 msk. pestó

50 g parmesan

olía

salt og pipar

Fylling

basil pesto

200 g basil

1 hvítlausksrif

45 g ólífuolía

60 g kasjúhnetur eða furuhnetur

50 g eða eftir smekk af parmesan

Hnetunum er velt upp úr olíu og létt ristaðar í ofni á 180 í 6 min

Sett í blandara eða matvinsluvél með basil,hvítlauk og olíu og maukað vel saman , rifin parmessan bætt við í lokinn , kryddað til með salti og pipar.

Hryggurinn fylltur og lokaður

Leggið hrygginn með fitu hliðina á brettið. Penslið með smá olíu, kryddið með salti og pipar, takið svo fínt rifjárn og rífið hvítlauksgeira yfir kjötið. Fyllið miðjuna á hryggnum af pestóinu. Rífið ferskan parmesan yfir.

Rúllið svo upp hryggnum og bindið vel með bindigarni.

Ofnin er hitaður i 220°C gráður, þegar kjötið fer inn í ofninn má lækka niður í 150°C - 160°C gráður. Best er að nota hitamæli og elda hrygginn upp í 52°C gráður og láta hann svo hvíla á bretti í 10-15 mínútur.

M&H - Hunangsgljáðar gulræturViktorÖrn

Hunangs gljáðar gulrætur sem bráðna í munni.

Hunangs gljáðar gulrætur

10 stk . íslenskar regnboga gulrætur

4 greinar rósmarín greinar

4 msk. hunang

2 msk. olia

dill

salt & pipar

Byrjið á því að hita ofninn í 180°C gráður. Gulræturnar eru þvegnar vel og endar snyrtir, svo velt upp úr olíu og hunangi, kryddaðar með salti og pipar. Síðan eru þær settar á bakka og bakaðar í 30-40 mínútur eða þar til þær eru orðnar mjúkar í gegn, stráið svo fínt söxuðu dilli yfir þær.

M&H kartöflumaukið Viktor Örn

Kartöflumaukið borið fram ásamt lambahryggnum fyllta á fallegum viðarbakka frá Bako Ísberg.

Kartöflumauk

500 g kartöflur ( helst möndlukartöflur)

150 g niðursoðin rjómi

100 g kalt smjör í teningum.

Sjóðið kartöflurnar, skrælið þær og þrýstið í gegnum sigti til að þær maukist. Blandið þeim við heitan niðursoðinn rjómann, hitið kartöflumaukið við miðlungs hita og hrærið stanslaust með sleif á meðan u.þ.b. 5-10 mínútur.

Bætið svo smjörinu við og hrærið áfram þar til smjörið er uppleyst og blandað við kartöflumaukið. Kryddið til með salti. Gott er að bæta nokkrum dropum af truffluolíu saman við til að fá gott bragð.

Berið fallegan fram og munið að við byrjum að borða sem augunum og svo munni.

Njótið vel og gleðileg jól.

M&H Viktor.png

Viktor Örn Andrésson matreiðslumeistar og landsliðskokkur,