Jólakransagerð fastur liður fyrir aðventuna

Aðventan nálgast óðfluga og margir eru byrjaðir að undirbúa aðventuna með ýmsum hætti. Ein af þeim sem hefur hafið undirbúning er Ingibjörg Ósk Jóhannsdóttir fagurkeri. Ingibjörg hefur mjög gaman að því að fegra heimilið og listrænir hæfileikar hennar njóta sín þegar kemur að því að prýða heimilið. Hún hefur afar gott auga fyrir fallegum hlutum, skemmtilegum og hagkvæmum lausnum þegar kemur að því að skreyta heimilið eins og fyrir jólin. Eitt af hennar fyrstu verkum þegar hún undirbýr aðventuna er að gera jólakransa. Ingibjörg er fremur fastheldin á liti og efnisval þegar kemur að því að setja saman jólakransa. „Ég nota mikið svart og grátt efni í grunninn á krönsunum fyrir sjálfan mig. Þegar aðrir biðja mig um að gera fyrir sig og panta þá leyfi ég þeim að sjálfsögðu að velja litina sem eru á þeirra óskalista,“ segir Ingibjörg. Aðspurð segir Ingibjörg að grátt, svart og strigaefni sé mjög vinsælt þessa dagana. Einnig sé mikið um bjöllur og stjörnur sem skraut á krönsunum. Hvaðan ætli Ingibjörg fái innblásturinn í kransagerðina? „Ég fæ fullt af hugmyndum á Pinterest sem er ein af mínum uppáhalds síðum. Síðan fæ ég alls konar hugmyndir þegar ég er í þankahríð að skreyta kransana mína.“

M&H Krans3 .jpg

Föndraði hjörtu á jólatréð í stofunni á bernskuárunum

„Ég hef ávallt haft gaman að því að föndra og nostra fyrir jólin og man fyrst eftir mér þegar ég er um tíu ára gömul að föndra hjörtu í formi kramarhúsa. Þetta jólaföndur var ávallt sett á jólatré heima,“ segir Ingibjörg og bætir við að hún hafi ávallt undirbúið aðventuna og jólin frá því að hún man eftir sér. „Fyrir hver jól baka ég ávallt töluvert, skreyti heimilið og svo er auðvita allt þrifið hátt og lágt. Þetta eru fastar hefðir og siðir á mínu heimili.“

M&H Krans 2.jpg

Fastheldin á jólahefðir og siði

Á heimili Ingibjargar eru sömu uppskriftirnar bakaðar ár eftir ár en stundum prófar hún einhverjar nýjar uppskriftir sem hún fellur fyrir. „Ég er mjög fastheldin á hefðirnar okkar og finnst gott að vera heima á Þorláksmessu, hlusta á jólakveðjurnar í útvarpinu og leggja lokahönd á undirbúninginn fyrir aðfangadag svo ilmurinn í húsinu verði lokkandi, ilmurinn af jólunum,“ segir Ingigbjörg og bætir því jafnframt við að aðfangadagur sé í föstum skorðum og þá sé hamborgahryggurinn færður upp á stærðarinnar fat og eftirrétturinn jólaís fjölskyldunnar, Tobleronísinn sé ómissandi hluti af jólamatnum. „Skemmtilegast við jólin er tíminn með fjölskyldunni, að njóta saman, borða góðan mat, horfa á jólamyndir og njóta góðra konfektmola.“

M&H Ingibjörg Ósk Jóhannsdóttir kransar.jpg

Ingibjörg Ósk Jóhannsdóttir fagurkeri með meiru.

Hér má sjá nokkra af jólakrönsunum hennar Ingibjargar.

M&H Krans 6.jpg

M&H Krans 4.jpg

M&H Krans 1.JPG

M&H Krans 8.jpg

Aðsendar myndir Ingibjörg Ósk Jóhannsdóttir