Arna Guðlaug Einarsdóttir kökuskreytingarmeistari og annálaður fagurkeri verður hjá Sjöfn Þórðar í þættinum Matur & Heimili á mánudagskvöld:
Arna Guðlaug Einarsdóttir kökuskreytingarmeistari er annálaður fagurkeri og er ein af þeim sem hefur mikla ánægju af því að halda boð og veislur. Ástríða hennar leynir sér ekki þegar hún tekur á móti gestum og veit hún fátt skemmtilegra en að bjóða til veislu með stuttum fyrirvara og gleðja sína nánustu. Sjöfn Þórðar heimsækir Örnu á heimilið hennar í Garðabænum þar sem hún ætlar að sýna sýnishorn af hátíðarborði, fyrir jóla- og áramótaveisluna í þættinum Matur og Heimili í kvöld. Einnig fáum við að líta inn í jólakokteilboð þar sem hún ætlar að gleðja gesti sína í aðventunni.
Fallegt borð skapar stemninguna
Arna leggur mikla áherslu á alla umgjörð og spáir í hvert smáatriði. „Að leggja fallega á borð skapar svo stemninguna. Falleg lifandi blóm, fallegar servíettur með brotum og falleg framsetning á veitingunum setur tóninn,“ segir Arna og raðar gjarnan saman gylltu og silfruðum litatónum sem eiga vel við hátíðleg tilefni eins og jól og áramót.
Elskar að halda veislur og gleðja vini og vandamenn
„Ég elska að halda veislur og dekka upp borð. Maturinn á ekki eingöngu að gleðja bragðlaukana heldur líka augað. Og öll umgjörðin í kringum matinn eykur á jákvæðu upplifunina.“ Arna mun vera með nokkur töfraráð fyrir þá sem vilja galdra fram kokteilboð án mikillar fyrirhafnar og kostnaðar. „Það er hægt að gera marga góða rétti frá grunni og án mikillar fyrirhafnar, líkt og laxafrauðið og ætiþistlaídýfuna.“ Síðan leggur hún áherslu á að margt er hægt að kaupa tilbúið og spara sér bæði fyrirhöfn og kostnað. „Það er svo gefandi og gaman að halda veislu fyrir vini og vandamenn með stuttum fyrirvara og koma þeim á óvart,“ segir Arna þó svo að þær séu mun færri og fámennari í ár en hefð er fyrir. Enda hver og einn komin með sína jólakúlu eins og frægt er orðið.
Þátturinn Matur og Heimili er sýndur alla mánudaga á Hringbraut klukkan 20.30 og aftur klukkan 22.30.