Brauðtertur eru alltaf mjög vinsælar og hafa verið að koma mjög sterkt inn síðastliðin ár eftir að vera í smá lægð um árabil. Sólrún Sigurðardóttir matgæðingur með meiru sem hlaut fyrstu verðlaun fyrir bragðbestu brauðtertuna í brauðtertukeppni menningarnætur Reykjavíkur árið 2019 er sérstaklega lagin við að koma með brauðtertur sem passa vel við hverja árstíð. Hér er Sólrún búin að framreiða glæsilega jólabrauðtertu, fagurlega skreyta og guðdómlega ljúffenga þar sem keimur af jólunum kemur við sögu.
Nóg af hvítlauk í þessari
„Brauðterta mín er pínu frábrugðin að þessu sinni. Ég er kannski pínu tækifærissinni að því leyti að ef ég finn uppskrift sem mér finnst spennandi og öðruvísi er ég ávallt tilbúin að prufa. Þessi hefur notið mikilla vinsælda í minni fjölskyldu, hvítlauks unnendur ættu að kætast því nóg er af hvítlauknum hér.“
Sólrún Sigurðardóttir matgæðingur með meiru og snillingur í brauðtertugerð.
Brauðtertur vinsælar á veisluborðum
Í fjölskyldu Sólrúnar eru brauðtertur ávallt vinsælar og hafa verið í miklu uppáhaldi á veisluborðum fjölskyldunnar. „Það hefur alltaf komið í minn hlut að gera þær fyrir veislur enda hef ég mjög gaman að dunda mér við þær,“ segir Sólrún og finnst fátt skemmtilegra en að töfra fram fallegar brauðtertur og skreyta þær með viðeigandi hætti að hverju sinni.
Jólabrauðtertan
1 stk. rúllutertubrauð eða hringlaga brauðtertubrauð
200 g rækjur (afþýða)
3 egg, harðsoðin og skorin í smáa bita (í eggjaskerar)
½ dós sýrður rjómi 18%.
1 dl hvítlaukssósa að eigin vali
1 msk. piparrótarsósa ( horseradish sauce ) eða hvaða tegund sem vill
2 msk. ferskt dill, saxað
2 - 4 söxuð hvítlauksrif
3 - 4 stykki passíuávextir/ástaraldin (passion fruit)
Fyrir skreytingu, greni, rifsber, salat og ferskar kryddjurtir að eigin val.
Blandið saman rækjum, eggjum, sýrðum rjóma, hvítlauks- og piparrótarsósu, dilli og söxuðum hvítlauk í skál og hrærið saman.
Skafið fræinn innan úr ástaraldin ávöxtunum og hrærið saman við salatið, smyrjið salatinu á brauðið, lag fyrir lag og skreytið efsta lagið til dæmis með rækjum og fræjum úr passíuávöxtunum. Hægt er að skreyta að vild, með ferskum kryddjurtum salati, greni og jafnvel með rifsberjum en þau eru mjög jólaleg eins og hér er gert. Berið fram á fallegan og jólalegan hátt.
Myndir Stefán ljósmyndari Fréttablaðsins.