Jólabollakökur Elenoru Rós sem allir geta bakað

Elenora Rós Georgesdóttir er aðeins 19 ára gömul og hefur þegar gefið út sína fyrstu uppskriftarbók sem ber heitið Bakað með Elenoru Rós sem hefur hlotið verðskuldaða athygli og er á metsölulista Eymundsson um þessar mundir. Hún er bakaranemi með mikla og einlæga ástríðu fyrir bakstri og starfar hjá Bláa lóninu við bakstur. „Ég hef elskað að baka frá því að ég man eftir mér og hef fengið að blómstra á þessu sviði,“ segir Elenora Rós sem þegar hefur brætt hjörtu landsmanna með útgeislun sinni og uppskriftum.

Jólastelpa sem elskar jólabakstur

„Ég elska fátt jafn mikið og jólin. Ég á reyndar afmæli á Þorláksmessu svo ég er ekta jólabarn. En burt séð frá því þá elska ég skreytingarnar, hefðirnar, baksturinn, snjóinn og allt sem jólunum fylgir. Kannski er það vegna þess að ég ólst upp við mikla jólastemningu en ég er ávallt pínulítil jólastelpa í hjarta mínu sem elskar jólabaksturinn og allt sem honum fylgir.“

Enginn var svikinn af þættinum Matur og heimili á mánudagskvöldið á Hringbraut þegar Elenora sýndi hvernig maður bakar jólabollakökur sem allir geta gert. „Þessar bollakökur eru samblanda af lagtertu og piparköku en innblásturinn af þeim kom frá því. Brún lagterta og piparkökur einkenna svo sannarlega jólin mín og því fannst mér tilvalið að setja þetta saman í nýjan búning en samt á þann hátt að allir geti gert þetta.“

M&H Elenora Rós og Sjöfn Þórðar.jpg

Elenora Rós Georgesdóttir og Sjöfn Þórðar í þættinum Matur og Heimili.

Jólabollakökur Elenoru Rós

460 g sykur

460 g hveiti

10 g negull

10 g engifer

10 g kardimommuduft

10 g kanill

230 g kakó

5 g matarsódi

5 g lyftiduft

2 egg

115 ml Olio Nitti ólífuolía

230 ml mjólk

230 ml heitt vatn

Aðferð:

  1. Forhitið ofninn í 170°C hita.
  2. Hrærið öllu vel saman þar til deigið verður silkimjúkt og glansandi, skafið niður hliðarnar ef þess þarf.
  3. Setjið deigið í bollakökuform og bakið þær í u.þ.b 20 mínútur.
  4. Leyfið þeim að kólna alveg.

Kanilkrem

250 g smjör

250 g flórsykur

10 ml rjómi

15 g kanill

Aðferð:

  1. Þeytið smjör þar til það er létt og ljóst.
  2. Bætið rjóma, flórsykri og kanil saman við og þeytið vel og lengi þar til kremið verður silkimjúkt og létt.
  3. Setjið kremið í sprautupoka og sprautið því á bollakökurnar og skreytið fallega með jólalegu ívafi.

Gleðilega aðventu og njótið vel.