Jólabasarinn í ár og eplapæ smákökurnar með löðrandi karamellu

Í ljósi stöðunnar þurftu Hringskonur að fara aðra leiðir til að halda sinn árlega Jólabasar sem eru frægur fyrir að innihalda eitt glæsilegasta köku- og sælkeraborð landsins. Við hittum Önnu Björk Eðvarðsdóttur formann Hringsins, sem hefur verið starfandi í félaginu frá árinu 2006 og formaður frá árinu 2018 og fórum yfir stöðuna á þessu herrans ári hjá Hringnum. En Hringskonur deyja ekki ráðalausar þegar kemur að því að halda fjáraflanir.

„Við höfum mikið velt fyrir okkur hvað við gætum gert varðandi fjáraflanirnar okkar í stöðunni eins og hún hefur verið. Okkar hefðbundnu fjáraflanir eru tengdar jólunum og við sáum fram á að þær gætu reynst erfiðar í framkvæmd eins og staðan hefur verið í haust vegna Covid-19. Staðan hefur breyst reglulega eins og allir vita og um leið margar góðar hugmyndir sem við fengum farið í vaskinn. En við ætluðum ekki að láta Covid-19 slá vindinn úr seglum Hringsins, sem hefur starfað óslitið frá 1904, í gegnum allskonar kreppur og 2 heimsstyrjaldir. Þörfin fyrir styrki til endurnýjunar á tækjum til lækninga og til að bæta aðstöðu barna, sem þurfa að leita til Barnaspítala Hringsins, á BUGL, eða heimi fyrir börn með fatlanir og svo auðvitað Vökudeildin, sem við höfum styrkt verulega mikið í gegnum árin, heldur áfram samt sem áður. Hringskonur vilja gera allt til að frábæra fagfólkið sem vinnur á þessum stöðum, hafi allt það besta sem í boði er, það er okkar metnaður í dag,“segir Anna Björk og er bjartsýn að nýja leiðir geti líka gert góða hluti.

Pop up jólabasar í Smáralind

Sem betur fer hafa Hringskonur ekki dáið ráðalausar, í gegnum tíðina. „Okkur datt í hug að athuga með verslunarhúsnæði, þar sem verslanir hafa verið opnar og við vonuðum að svo yrði áfram. Við fórum á stúfana og sendum póst til ráðamanna í Smáralind til að athuga hvort það væri einhversstaðar laust horn hjá þeim. Okkur var tekið af þvílíkum höfðingskap þar og boðið húsnæði á 1. hæð, þar sem verslunin Drangey var, til afnota endurgjaldslaust í tvær vikur. Þú getur rétt ímyndað þér hvað við vorum glaðar, loksins komið plan sem var hægt að framkvæma. Ég veit það á eftir að gleðja marga að heyra að það verður basar í ár, því það eru svo margir sem koma ár eftir ár og eru búnir að vera að spyrjast fyrir um basarinn í ár.“

Anna Björk Eðvarðsdóttir 17.jpg

Pop up jólabasarinn hjá Hringskonum.

Fyrsti basarinn var haldinn 12.desember 1912

Ertu til að segja okkur söguna bak við tilurð upphafi þess að Hringskonur fóru að vera með jólabasar? „Já, hún er ansi merkileg, fyrsti basarinn var haldinn 12. desember 1912, í Góðtemplarahúsinu held ég, þar voru seldar „hannyrðir félagskvenna, á sanngjörnu verði“ og nefnt að þær væru tilvalin jólagjöf eins og segir í sögu félagsins. En happdrættið er eldra, það var kallað lottrý og var fyrst í kringum 1907. Þá söfnuðust kr. 832,18.-, en til samanburðar má nefna að mánaðarleiga á herbergi með eldhúsi við Laugaveg í Reykjavík var 5 kr. og stofngjald Verkamannfélagsins Dagsbrúnar árið 1906, var 1 kr.- Basarinn var haldinn svolítið stopult fram til 1942, en þá lá ný stefnuskrá Hringsins fyrir. Hringskonur hættu starfsemi Hressingarhælisins í Kópavogi, sem hafði verið rekið fyrir fátæka berklasjúklinga í bænum og gáfu ríkinu það, því það vara ekki þörf fyrir það lengur. Þá voru Hringskonur verkefnalausar, en það stóð ekki lengi. Þær fóru að horfa í kringum sig og sáu að þörf var á barnaspítala og ákváðu á aðalfundi í apríl 1942, að gera byggingu hans að sínu aðalverkefni. Þetta var nokkuð brött áætlun og kostaði heilmikinn kjark og hugmyndaflug að hrinda henni í framkvæmd. Einn af leiðunum til að afla peninga í verkið var t.d. jólabasarinn, auk alls konar annarra uppákoma og með sölu á ýmsum varningi. Svo var það á 99 ára afmælisdegi félagsins, þann 26. janúar 2003 að nýtt hús Barnaspítala Hringsin var vígt við hátíðlega athöfn. Basarhefðin hefur haldist síðan 1942.“

Covid 19 hefur haft áhrif á fjáraflanir á þessu ári

Hvernig hefur gengið að safna styrkjum fyrir Barnaspítala Hringsins og Vökudeildina í ár? Við finnum fyrir Covid ástandinu eins og allir aðrir. En, sem betur fer eigum við dyggan stuðningshóp í samfélaginu, bæði meðal almennings og fyrirtækja sem leggjast á árarnar með okkur, við erum óendanlega þakklátar fyrir það. Árið 2018 veittum við styrki fyrir 97 milljónir, 2019 fyrir 61 milljón og í ár erum við búnar að veita ýmsa styrki, fyrir rúmar 32 milljónir. En við erum ekki búnar að afgreiða allar beiðnirnar sem liggja fyrir hjá okkur, sú upphæð á eftir að hækka verulega, þess vegna ríður á að allt gangi vel á basarnum okkar í ár. Hann verður stærsta fjáröflunin sem við förum í, í ár.“

Hringskonur sitja ekki auðum höndum fyrir aðventuna

Þar sem aðventan er handa við hornið og jólin nálgast senn eigið þið þá ekki von á því að Pop up basarinn verði með jólaívafi í ár? „Sannarlega, eins og alltaf. Við ætlum að bjóða uppá allskonar handavinnu og prjónavörur. M.a. heimferðasettin sem eru svo vinsæl og alla vega barnasett, vettlinga, sokka og peysur, meira að segja handprjónaðan skírnarkjól. Hringskonur búnar að vera að föndra sínar landsþekktu jólavöru og verður hún til sölu á basarnum líka. Um helgarnar verður úrval af marengstertum, alla vega hnallþórum, súkkulaðikökum og pönnukökum, en alla vikuna verður úrval af kökum, sultum og smákökum. Veitingastofa Hringsins, sem er í anddyri Barnaspítalans, er annáluð fyrir frábæran mat. Helga Mogensen, matgæðingur sér um eldhúsið fyrir okkur, með Kristjón Hjaltested sér við hægri hönd. Þau ætla að búa til hnetusteikur, rauðkál, sósur og jóla hnetumix, sem verður hægt að kaupa. Við verðum með góða kæla fyrir matvöruna, sem heiðurshjónin sem reka Verslunartækni og Geiri hf., lána okkur endurgjaldslaust, við eigum góða að. Allar matvörur verða auðvitað með góðum innihaldslýsingum og auðvitað verða allar sóttvarnir hafðar í hávegum.“

Jólakort Hringsins í ár teiknað að Rán Flygenring

Anna Björk nefnir jafnframt að þær verið líka með fallega Jólakort Hringsins 2020, til sölu, sem Rán Flygenring teiknaði. „Það er bjart, litríkt og fallegt, akkúrat það sem okkur vantar núna á þessum skrítnu tímum. Við erum líka með Jólanælu Hringsins, sem er mjög falleg barmnæla. Síðan erum við með barna afmæliskort, með myndum af Kuggi og Sigurfljóð, eftir Sigrúnu Eldjárn og úrval af pakkakortum á jólapakkana, svo það eru margir valmöguleikar í boði fyrir alla sem koma og vilja styrkja gott málefni.“

Netverslun komin í loftið á vegum Hringsins

Hringurinn er búinn að setja netverslun í loftið. Þar er hægt að kaupa heimferðasett og alla fallegu prjónavöruna okkar og kortin inn á www.hringurinn.is. Svo allir landsmenn geta núna verslað við Hringskonur án þess að fara úr húsi og geta stutt gott málefni í leiðinni. Allt sem safnast í Barnaspítalasjóð Hringsins, rennur krónu fyrir krónu, í styrki til Barnaspítala Hringsins, Vökudeildar og annara deilda LSH, sem sinna börnum. Hringurinn er með enga yfirbyggingu og allar Hringskonur eru launalausir sjálfboðaliðar.

Truflaðar, mjúkseigar eplapækökur

Þar sem Anna Björk er líka matar- og kökubloggari og annálaður sælkeri fengum við hana til að deila með okkur lesendum einni af sinni uppáhalds jólasmáköku uppskrift.

„Kökurnar sem ég held mikið uppá núna, eru eplapæ kökur með mjúkri karamellu og saltkornum. Þær eru alveg truflaðar, mjúkseigar með öllum uppáhalds jólakryddunum, engifer, kanil og vanillu og mjög einfaldar. Þessar bakaði ég einmitt líka fyrir basarinn. Ég gerði prufu af nokkrum sortum um daginn fyrir dæturnar og þessar kökur fengu topp einkunn hjá þeim og fjölskydunni.“

M&H Anna B kökurnar.jpg

Eplapæ kökur með mjúkri karamellu

U.þ.b. 40 miðlungs stórar kökur

200 g haframjöl,

300 g hveiti

1 tsk. lyftiduft

¼ tsk. matarsódi

1 ¼ tsk. kanill

¾ tsk. engiferduft

¼ tsk. salt

110 g mjúkt smjör

200 g dökkur púðursykur

100 g sykur

2 stór egg

1 tsk. vanilludropar

1 rautt Royal Gala epli

Ofan á

18 rjóma karamellur, frá Góu

5 msk. rjómi

gróft sjávarsalt

Hafrarnir eru púlsaðir nokkrum sinnum í matvinnsluvél eða blandara. Sykur, púðursykur og smjör er þeytt létt og ljóst í hrærivél. Síðan er eggjum og vanillu þeytt út í, þar til allt er vel blandað saman. Hveiti, höfrum, lyftidufti, matarsóda, kryddum og salti er blandað saman í stóra skál. Eplið er þvegið vel, kjarnhreinsað og skorið í litla bita. Þurrefnunum er hrært vel saman við smjörblönduna, síðan er eplunum hrært út í deigið. Skálinni er stungið í ísskápinn og deigið kælt í 1 klukkustund. Ofninn er hitaður í 190°C. Bökunarpappír er settur á nokkrar ofnplötur. 1 msk. af deigi er sett með nokkurra cm millibili á plöturnar. Ég bakaði 2 plötur í einu í 13-15 mínútur og sneri plötunum einu sinni á bökunartímanum. Kökurnar eru teknar úr ofninum, settar á grind og kældar. Á meðan kökurnar kólna, eru karamellurnar settar í lítinn pott og bræddar með rjómanum á lágum hita, hrært í á meðan svo þær brenni ekki. Þegar karamellan er brædd, er kökunum raðað þétt, í einfalt lag á pappír. Karamellan er sett í einnota sprautupoka og smá gat klippt af endanum á honum og karamellunni sprautað yfir kökurnar (passaðu þig, karamellan er heit). Í lokin er smávegis af grófu sjávarsalti dreift yfir. Kökurnar eru látnar bíða á pappírnum þar til karamellan hefur stífnað. Geymdar í boxi með smjörpappír á milli laga.

M&H Anna Björk kökur.jpg

Eplapæ smákökurnar hennar Önnu Bjarkar eru ómótstæðilega girnilegar.