Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, bakþankahöfundur Fréttablaðsins, hittir oftar en ekki naglann á höfuðið í pistlum sínum og á baksíðu blaðsins í dag gerir hún ADHD að umtalsefni í þrælskemmtilegum pistli.
„Litla systir mín fæddist þegar ég var ellefu ára og hún varð strax uppáhaldið mitt. Mér fannst hún skemmtilegasta, fallegasta og besta barn sem hefði nokkurn tímann fæðst í heiminum. Enda dró ég hana með mér út um allar trissur og varð „litla mamma“ hennar,“ segir Jóhanna í byrjun pistilsins.
Hún heldur áfram:
„Einu sinni sem oftar var ég send í sjoppuna til að sækja meðlæti með sunnudagslærinu. Sem fyrr dró ég litlu systur með mér í þennan stutta leiðangur – og keypti samviskusamlega það sem fyrir mig var lagt. Á leiðinni heim fór ég í huganum yfir innkaupalistann, margoft; malt, appelsín, grænar baunir, malt, appelsín, grænar baunir, og svo framvegis. Enda leið mér eins og ég hefði gleymt einhverju,“ segir hún og bætir við að þegar heim var komið og aðföngin fyrir framan foreldra hennar hafi hún spurt hvort þarna væri ekki allt sem hún átti að kaupa.
„Jú, þetta var allt. Í framhaldinu fékk ég spurninguna: „En hvar er systir þín?“
Jóhanna segir að henni hafi verið hugsað til þessa afreks við lestur viðtals við framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs sem greindist með ADHD á fullorðinsárunum.
„Henni hætti til að týna bíllyklunum, jafnvel bílnum. Á mínum fyrri vinnustað átti ég í stökustu vandræðum með að finna bílinn minn enda yfirleitt í þungum þönkum í lok vinnudags. Ákveðnum lágpunkti var náð eitt síðdegið þegar ég loksins fann hann, settist í aftursætið og fann ekki stýrið,“ segir Jóhanna. Það er ekki það eina.
„Að sama skapi gleymi ég stundum að deila mikilvægum upplýsingum með manninum mínum. Til dæmis þegar ég sagði upp vinnunni. Ég ætti kannski að panta tíma í greiningu. En ég mun örugglega gleyma því líka.“
Í Fréttablaðinu í dag er einmitt áhugaverð umfjöllun um ADHD en þar er rætt við Harald Erlendsson geðlækni sem segir að langtum fleiri landsmenn séu með ADHD-röskun hér á landi en greiningar, meðferð og lyfjagjafir gefa til kynna.