Jóhanna lifir

Greiðendur afnotagjalda fengu slatta fyrir peninginn sinn í gærkvöld. Ríkisútvarpið hleypti nýjum þætti með Gísla Marteini af stokkunum og bar hæst frábært viðtal við Baltasar Kormák. Þó kynnu sumir að segja að ein frétt í þættinum hefði skyggt á Balta-viðtalið, könnun sem mældi það álit meðal þjóðarinnar að langflestir Íslendingar telja að Jóhanna Sigurðardóttir hafi staðið sig best í starfi forsætisráðherra.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sú fróma og heilsteypta þingkona Sjálfstæðisflokksins, var meðal gesta Gísla Marteins. Hún virtist slegin yfir niðurstöðunni, sagði það beinlínis í þættinum. Geir Haarde sem nú gegnir trúnaðarembætti sem sendiherra í Washington þrátt fyrir sektardóm í Landsdómi fékk afleita einkunn í þessari könnun meðal þjóðarinnar. Davíð alls ekki sá kraftaverkamaður fortíðar sem innvígðir hafa haldið á lofti.

Það er kannski til merkis um þá vakningu sem þarf að verða innan Sjálfstæðisflokksins að sjallarnir vakni upp frá þeirri ranghugmynd að allt sé best sem komi innan frá þeim sjálfum. Svo eitt dæmi sé nefnt er það ekki bara hægristjórninni að þakka að Ísland hefur rétt úr kútnum fjárhagslega. Þvert á móti ber að þakka öllu því góða fólki sem tók þátt í að endurreisla Ísland eftir efnahagshrunið sem var í boði framsóknar- og sjálfstæðismanna öðrum fremur, hvernig sem sumir reyna að endurskrifa söguna. Íslenskum almenningi ber einkum að þakka að hafa tekið á sig þungar byrðar um áralangt skeið eftir hrun án þess að sligast. Og við fórum aldrei á taugum.

Vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fór um síðir á taugum þótt Jóhanna gerði það ekki. Stjórninni tókst ekki að skapa traust milli stjórnmála og almennings þótt margt gætt væri gert. Þjóðin ber nú eiginleika  Jóhönnu saman við eiginleika forsætisráðherra dagsins í dag. Sumpart má segja að Íslendingar hafi kosið yfir sig andstæðu Jóhönnu fyrir rúmum tveimur árum. Ríkisstjórn ríka fólks hefur hún verið kölluð og sannarlega er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forríkur maður. En þannig tal er retorísk einföldun.  Á þessu landi er það jafnan ekki þannig að stjórnir séu annað hvort algóðar eða alvondar fyrir almenning í landinu. Umræðan er pólaríseruð og öfgafull. En þegar gruggið fellur til botns minnist þjóðin Jóhönnu Sigurðardóttur með hlýju. Þakkar henni framlagið eins og fram kom í Vikunni hjá Gísla Marteini í gær. Það var gott hjá Gísla að láta Gallup spyrja þessarar spurningar.

Á sama tíma og Gísli vígði þáttinn sinn ræddi Logi Bergmann vinur hans á Stöð 2 við vinnuveitanda og yfirmann eiginkonu sinnar, Bjarna Ben. Glatt var á hjalla og grín gert að Icehot2-málinu. Ógezlega fyndið!  Eins gott að gera dáldið grín, því Skjár einn var á sama tíma með nýja hæfileikakeppni í opinni dagskrá og hörð barátta um áhorfið.

Eflaust mun sitt sýnast hverjum um þátt Gísla Marteins, og líka Loga og líka hæfileikakeppnina og jafnvel getur orðið umræðuefni hvernig víbrarnir séu milli Þóru og Sigmars í Útsvari. Ágætt er í öllum tilfellum að halda því til haga að fjölmiðlafólk gerir sitt besta á öllum tímum, þótt afurðirnar heppnist misvel. Þannig er það líka með stjórnmálamenn, að jafnaði gera þeir sitt besta. Líka smiðirnir, pípararnir, læknarnir og verkafólkið, við gerum okkar besta frá degi til dags en sumum gengur það betur en öðrum.

Jóhönnu Sigurðardótttur gekk  vel að gera sitt besta og hugur þjóðarinnar til hennar er til merkis um það. Gildir einu hve mörgum eiturörvum verður skotið úr Hádegismóum til að reyna að menga hug almennings og endurskrifa söguna. Jóhanna stendur af sér orðsporsstorminn – á meðan sumir fyrrum kollegar hennar og starfsbræður skjálfa nú eins og lauf í vindi.