Í gær urðu straumhvörf í varnarbaráttu Icelandair þegar tilkynnt var að samningar hafi náðst við Boeing-verksmiðjunar og kröfuhafa um viðunandi lausnir vegna endurskipulagningar á fjármálum Icelandair.
Eftir þessu hefur verið beðið. Nú er ekkert að vanbúnaði að ganga frá samningi við ríkissjóð og ríkisbankana um ábyrgðir vegna yfirdráttarlána í bönkunum sem mögulegt væri að grípa til.
Fljótlega ætti félagið að geta birt útboðslýsingu vegna hlutafjáraukningar og hafið það ferli sem ætti ekki að þurfa að taka langan tíma.
Heyrst hefur að boðin verði til sölu hlutabréf í félaginu fyrir á bilinu 20 til 25 milljarðar króna, trúlega á gengi í kringum 2,0. Seljist útboðið að fullu yrði eignarhlutur núverandi hluthafahóps um 30 prósent á móti 70 prósent vegna viðbótarhlutafjár.
Vitað er að einkafjárfestar hafa skoðað alvarlega að kaupa helming hlutafjárútboðsins. Þar er um að ræða fjárfestingu á bilinu 10 til 12 milljarðar.
Líkur á raunverulegum áhuga þeirra jukust verulega í gær þegar tilkynnt var um að samningar Icelandair við fyrrgreinda aðila væru í höfn.
Gerist þetta má fullvíst telja að útboðið heppnist vel og gangi hratt fyrir sig - alveg óháð dyntum einstakra íslenskra lífeyrissjóða og vanhugsaðra hótana óábyrgra verkalýðsleiðtoga sem hafa orðið berir að tilraunum til skuggastjórnunar.