Hörund Hannesar Hólmstein er næfurþunnt og viðkvæmt, eins og silki, andlitið sem postulín. Í stuttu máli er Hannes hörundsár. Þannig brást hann ókvæða við þegar Gunnar Karlsson teiknaði af honum skopmynd í síðasta helgarblaði. Forsöguna má rekja til þess að Hannes sagði:
„Greta Thunberg segir að hún tali fyrir komandi kynslóðir. Hvað hafa komandi kynslóðir gert fyrir okkur? Ekkert. Hvað höfum við gert fyrir komandi kynslóðir? Allt.“
Í kjölfarið teiknaði Gunnar Karlsson Hannes, standandi á ruslaeyju úti á reginhafi. Á myndinni segir Hannes:
„Sjáiði ekki hvað við höfum gert mikið fyrir komandi kynslóðir.“
Hannes hafði engan hemil á sér næstu klukkustundir eftir þetta og skrifaði hvert innleggið á fætur öðru sem beindist að eigendum Fréttablaðsins. Birti hann myndir af eignum sem Jón Ásgeir og Ingibjörg áttu fyrir og rétt eftir hrun og spurði hvað þær hefðu skilið eftir sig mörg kolefnisfótspor. Þá gekk Hannes Hólmsteinn svo langt að saka eigendur um að stýra Gunnari Karlssyni og réðu þannig hvernig skopmyndir hann léti frá sér fara. Auðvitað er fráleitt að halda slíku fram en um leið alvarlegar dylgjur í garð eigenda og svo listamannsins. Slíkri þvælu er auðvitað varla hægt að svara, nema þá með örleikriti í farsastíl. Jakob Bjarnar Grétarsson, hinn skeleggi blaðamaður á Vísi, ákvað að taka það að sér og birti eftirfarandi texta sem varpar ljósi á hvað hinar vanstilltu samsæriskenningar eru mikil þvæla. Gefum Jakobi orðið:
Gunnar Karlsson: Halló?
Jón Ásgeir: Jón Ásgeir hérna megin.
G: Jón Ásgeir?
J: Já, Jón Ásgeir eigandi Fréttablaðsins.
G: Já, sá Jón Ásgeir? Sæll.
J: Sæll sjálfur. Heyrðu, nú er loksins komið mómentið sem við höfum verið að bíða eftir.
G: Já, … ehhh, meinarðu með hann … Hannes?
J: Nákvæmlega. Sástu þetta sem hann sagði um sænsku stelpuna?
G: Já, þú meinar…
J: Ég held að nú sé rétta tækifærið til að snúa hann niður. Gætirðu ekki teiknað skrípamynd af honum þar sem hann stendur á einhverju rusli og látið hann segja eitthvað um framtíðina?
G: Jú, þetta er alveg rakið. Aldrei hefði ég getað látið mér þetta til hugar koma.
J: Gott mál. Verður gaman að sjá hvað kemur út úr þessu.
G: Konsider it dönn.
J: Ég held að við höfum loksins náð taki á honum.
En Hannes var hvergi nærri hættur og hélt áfram. Þá aftur ákvað Jakob Bjarnar að grípa til sinna ráða og sagðist finna til með Hannesi um leið. Um leið spurði hann hvort Hannes væri rétti maðurinn til að gagnrýna eigendur Fréttablaðsins. Hannes sagði í einni færslu sinni:
„Af hverju eru engar teikningar gerðar af því, heldur aðeins af einum óbreyttum opinberum starfsmanni, sem aldrei hefur losað neinn koltvísýring í andrúmsloftið, svo að heitið geti?“
Jakob spurði þá á móti hvort þetta gæti nú verið alveg nákvæmt og upplýsti Hannes að hann hefði skoðað færslur aftur í tímann og nú gefum við Jakobi orðið:
„ ... og komst að því, sem ég reyndar vissi fyrir, að þú ert nú enginn meðaljón í þessum efnum. Þú nánast býrð í flugvél. Ef ekki væri netsamband í flughöfnum og í flugvélum væri fátt af þér að frétta. Því þú greinir af ferðum þínum um víða veröld nánast barnslega glaður í bragði, og mátt vissulega vera ánægður með það hversu mikillar viðurkenningar þú nýtur um heim allan. Þú ert náttúrlega einhver mesti umhverfissóði sem um getur ef litið er til flugferða þinna.
Hér eru örfá dæmi en það tók mig tvær mínútur að finna þetta til:
…
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Í gær klukkan 12:36 ·
[…]Bókin er afar vel skrifuð og skemmtileg og var metsölubók um allan heim. Mario Vargas Llosa og Margrét Thatcher sögðu bæði, að hún hefði haft áhrif á þau. Nú fékk ég boð eins og þrumu um heiðskíru lofti um að sækja ráðstefnu um bókina og höfund hennar í Poitiers í Frakklandi um miðjan nóvember á þessu ári, en ég er hræddur um, að ég komist ekki, því að ég hef þegar bundið mig víða.“
…
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
1. október kl. 22:31 ·
„Ég tek þátt í þessari ráðstefnu í Vínarborg í nóvember og flyt þar erindi um tengsl Hayeks og Carls Mengers…“
…
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
1. október kl. 22:27 ·
Ég tek þátt í þessari ráðstefnu í Kænugarði í nóvember…“
…
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
1. október kl. 21:31 ·
Ég hafði ekki tök á því að sækja þennan fund vegna vísindarannsókna erlendis.
…
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
1. október kl. 16:03 ·
Eins og allir þeir, sem stunda vísindalegar rannsóknir, vita, getur ekkert komið í stað vettvangsrannsókna. Ég hef verið beðinn að skrifa skýrslu um nýtingu vatnasvæðanna í Amasón, þar sem eru óteljandi ár, fljót og vötn, sum full af fiski. Þess vegna varð ég hér í Rio de Janeiro að fá mér brasilíska fiskisúpu, moqueca, úr ferskfiski frá Amasón, sem heitir pirarucu.
…
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
30. september kl. 12:39 ·
Hér er stuttur útdráttur úr erindi því, sem ég hélt til varnar smáríkjum í Aix-en-Provence 19. ágúst 2019.
…
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
18. september kl. 15:29 ·
Kominn í mína aðra heimaborg, Rio de Janeiro. Hélt upp á 74 afmæli eins vinar míns, James, á Satyricon í Ipanema. Afbragðs matur.
…
Þú hlýtur að þekkja hvern einasta flugþjón sem er á áætlunarflugi til Íslands með nafni og þekkja frequent-flyer sértilboðin eins og lófann á þér?
Hannes endaði svo umræðu sína á að birta mynd af sér á Facebook þar sem hann er staddur erlendis. Þar lét Hannes, vitandi að umræðan var töpuð og hann hefði eins og svo oft áður farið fram úr sjálfum sér, þessi ummæli falla: „Það er aðeins eitt verra en að vera á skopmynd, og það er að vera EKKI á skopmynd.“
Í fyrsta lagi dæmir sá sig marklausan sem æsir sig yfir að aðrir skilji eftir sig kolefnisfótspor þegar hann birtir svo af sér mynd strax á eftir þar sem hann skálar við sjálfan sig erlendis. Í flestum tilvikum væri það hjákátlegt.
Það spor sem Hannes skilur eftir sig er þó alls ekkert fyndið, en hann sakar fjölmiðlamann um óvönduð vinnubrögð og ekkert tekur fjölmiðlamaður meira nærri sér en að vera sagður handbendi eigenda sinna. Það er heldur ekki nauðsynlegt að stýra fjölmiðlamönnum þegar fjallað er um Hannes. Fjölmiðlamenn eru vanir að koma auga á það þegar prófessorinn fer með fleipur. Og þegar Hannes ákvað að níða skóinn af Gretu sá öll þjóðin það úr órafjarlægð þegar hann fór út af sporinu. En Hannes heldur kannski að fjölmiðlaheimurinn svipi til pólitíska sviðsins, að þar sé fólk undir hælnum á forystunni enda er honum Hannesi svo tamt að bergmála ósjálfrátt nánast hverju hljóði sem haninn galar í Hádegismóum.