Birt hefur verið skýrsla innanríkisráðherra á vef Alþingis um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum. Þar eru reifaðar tillögur í því skyni að breyta barnalögum og lögheimilislögum. Til skoðunar er að börn foreldra sem skilja geti skráð sig með tvö lögheimili, enda forsjá og umgengni gjarnan jöfn með sameiginlegu forræði.
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, spurði Ólöfu Nordal innanríkisráðherra vegna útkomu skýrslunnar hvort reikna mætti með nauðsynlegri bragarbót í þessum efnum. Í núverandi lagaumhverfi miðaðist t.d. bótakerfi við að barn búi aðeins á einum stað en ekki tveimur.
Innanríkisráðherra sagði að ráðuneytið myndi taka skýrsluna til athugunar. Hún væri fylgjandi því að gerðar yrðu breytingar á barnalögum og lögheimilislögum, einmitt í því skyni að jafna aðstöðumun.