Jæja, agnes, nú er þetta orðið gott: kominn tími til að biðjast fyrirgefningar

Árið er 2015 og þú situr inni á skrifstofunni þinni á Biskupsstofu. Þið eruð þrjú saman.Þú, séra Þórir Stephensen, fyrrverandi dómkirkjuprestur og barnaníðingur og síðan þolandi Þóris, sem situr með ykkur á ykkar heimili. Þú veist að Þórir braut kynferðislega, með endurteknum og grófum hætti, á konunni þegar hún var aðeins 10 ára. Þið eruð að halda sáttafund.

Agnes, þú hlustar á konuna segja frá því að þegar Þórir var ungur maður vantaði hann tímabundið húsnæði. Pabbi konunnar sem situr á skrifstofunni hjá þér sá aumur á honum og bauð Þóri herbergi í húsi þeirra. Konan hefur örugglega líka sagt þér að hún hafi ásamt níu ára systur sinni verið í einu herbergi á háaloftinu en Þórir verið í herbergi á sama gangi en þar bjó hann nokkra mánuði.

Konan hefur líka lýst fyrir þér að í minnsta kosti sjö til átta skipti, hafi Þórir komið inn í herbergið og brotið á henni kynferðislega með skelfilegum hætti. Konan hefur sagt þér að hann hafi ekki hætt fyrr en yngri systir hennar vaknaði og sá Þóri. Þá hysjaði hann upp um sig buxurnar og fór út úr herberginu þeirra.

Við gerum ráð fyrir því að hún hafi greint þér frá skelfilegum afleiðingum ofbeldisins. Einangrun og heimsóknum til Stígamóta í mörg ár. Þú veist það Agnes, að konan hefur aldrei jafnað sig á svívirðilegum kynferðisbrotum prestsins.

Og þegar konan hafði opnað sig um þessa skelfilegu lífsreynslu sem markaði hana alla tíð á skrifstofunni hjá þér, var komið að séra Þóri. Hann sagði:

Já, ég gerði þetta. Mér þykir þetta leitt ...

eða eitthvað í þá veru, guð einn má vita það.

Síðan kvöddust allir og hver fór sína leið.

Ekki datt þér á þessari stundu að banna Þóri að taka þátt í kirkjulegum athöfnum í nánustu framtíð.

Þú gerðir bara einfaldlega ekki neitt.

Innan kirkjunnar var gagnrýnt hvernig staðið hefði verið að sáttafundinum. Úrskurðarnefnd Þjóðkirkjunnar setti út á framgöngu þína og verklagið.

Þórir hélt áfram að predika yfir þolanda sínum. Hann fékk verkefni innan kirkjunnar þrátt fyrir að hafa játað fyrir framan þig skelfileg kynferðisbrot. Þolandinn var kirkjurækinn síðast þegar við vissum. Hún gat allt eins átt von á því að sjá kynferðisofbeldismanninn við hin ýmsu tækifæri.

Honum var boðið að vera við vígslu í Skálholti. Þar heilsuðust þið með virktum, í ágúst 2018.

\"\"

Árið 2016 tók hann þátt í æskulýðsstarfi kirkjunnar og gekk þar fyrir þeirra hönd í gleðigöngunni.

Hann predikaði í útvarpsmessum sem fluttar voru í Ríkisútvarpinu.

Er það nú geðslegt að þolandinn hafi mögulega þurft að heyra Þóri predika yfir sér á sínu eigin heimili?

Án efa hefur Þórir sinnt fleiri verkefnum.

Þú og tveir aðrir biskupar vissuð hvað Þórir hafði gert.

Þegar við vorum á DV greindum við frá málinu, við sögðum frá fleiri syndum kirkjunnar.

Bjartmar sat á móti þér á þessari sömu skrifstofu og sáttafundurinn fór fram á og spurði þig hvort það væri ekki einkennilegt að eftir að Þórir viðurkenndi að hafa brotið á konunni þegar hún var tíu ára, að hann fengi að halda messu í Breiðholtskirkju og mæta í vígslu Skálholtsbiskups hjá þér. Þetta var svarið þitt, Agnes:

„Ég veit ekki hvort það sé neitt óeðlilegt við það í sjálfu sér.“

Bjartmar benti þér á að hann hefði viðurkennt barnaníð. Þá sagðir þú:

„Ég tel líka að gerandinn verði að bera ábyrgð á sjálfum sér, hvað honum finnist við hæfi og hvað ekki. Hann er búinn að viðurkenna þetta og þetta verður ekki tekið til baka frekar en annað úr fortíðinni. En þá höfum við líka það sem heitir í kirkjunni fyrirgefningin.“

Síðan sagðir þú að málinu væri lokið.

Eftir umfjöllun okkar birtir þú pistil á Facebook. Á honum mátti skilja að þér þætti ekki mikið til blaðamennsku okkar koma.

Við vorum bara að benda á hvernig kirkjan hafi endurtekið brugðist skyldu sinni gagnvart skjólstæðingum, sópað undir teppið, falið og neitað að horfast í augu við vandamál sem upp koma. Þess í stað er gerendum hampað eins og mál Þóris Stephensen sýnir svo glöggt.

Við létum rödd þeirra hljóma sem gagnrýndu að kynferðisbrotamaður fengi verkefni innan kirkjunnar.

Viðbrögð þín urðu til þess að þrýstingur í samfélaginu varð gríðarlegur um að brugðist yrði við.

Loks tókst þú rétta ákvörðun. Sjöunda september baðst þú Þóri um að víkja.

Þetta hefðir þú átt að gera árið 2015.

Í dag er viðtal við þig á RÚV. Þar segir þú að ekki komi til greina að hafa presta hjá kirkjunni sem hafa brotið á börnum eða öðru fólki. Þórir muni ekki framkvæma fleiri prestsverk. Þú vilt heldur ekki vita hvað standi í bréfi Þóris sem hann skildi eftir hjá þér og hann vill að sé opnað eftir andlátið. Þú hefur enga löngun til þess.

Við skrifum þér þessar línur út af framgöngu þinni í þessu viðtali. Árið 2015 gerðir þú nefnilega nákvæmlega ekkert. Árið 2018 lést þú undan þrýstingi fjölmiðla og samfélagsins og tókst þá ákvörðun að Þórir fengi ekki lengur að predika yfir þolanda sínum og öðrum.

Þú fordæmir kynferðisbrot, þú hefur ekki geð á að vita hvað standi í bréfi Þóris, þú segir að prestar sem eru barnaníðingar eigi ekki að koma fram fyrir hönd kirkjunnar.

Með þessu öllu, ef þú áttar þig ekki á því Agnes, þá ertu búin að játa að hafa gert stór og mikil mistök árið 2015, að halda sáttafund, hlusta á prest játa og hafa síðan ekkert gert til að hindra að hann kæmist aftur í predikunarstólinn.

Okkur finnst samt að þú eigir eitt eftir.

Þú varst spurð á RÚV hvort það ætti að greiða konunni bætur. Þú sagðir að engin ósk hefði komið fram um slíkt. Við erum með eina uppástungu:

Það færi vel á því að bjóða konunni sem var beitt ítrekað grófu kynferðislegu ofbeldi þegar hún var 10 ára af séra Þóri bætur. En fyrst og fremst ættir þú og kirkjan að biðja hana einlæglega opinberlega afsökunar á hvernig þrír biskupar hafi brugðist henni í gegnum árin. Þú getur svo beðið hana sérstaklega og þá einlæglega og opinberlega afsökunar að hafa brugðist henni og valdið miklum sársauka árið 2015.

Hún á það inni hjá þér.

Fyrir löngu síðan.

Kveðja,

Kristjón og Bjartmar.

Kristjón Kormákur Guðjónsson - Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson