\"Já, við vísuðum Ástþóri út úr skólanum,\" segir Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri í samtali við Hringbraut.
Ástþór hefur síðustu daga dvalið á Norðurlandi. Hafa ýmis álitamál kviknað vegna undirskriftasöfnunar hans eins og Hringbraut hefur fjallað um. Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, segir um skýringar þess að Ástþóri var vísað burt úr VMA sl. fimmtudag, að ákveðnar reglur gildi í framhaldsskólum. 50% nemenda séu undir átján ára aldri og ekki með kosningarétt. Aukinheldur gildi sérstakar reglur um kosningabaráttu þar sem samþykki fyrir uppákomum þurfi að liggja fyrir áður en gestir koma inn í skólana.
Skólameistari segir að aldrei hafi það komið fyrir áður að maður hafi gengið án leyfis inn í skólann og farið að safna undirskriftum fyrir sjálfan sig. Ástþór hafi brugðist illa við þegar hún sem skólameistari fékk pata af heimsókninni og ákvað að láta vísa honum út. Hún hafi sem skólameistari verið sökuð um skoðanakúgun og brot á lýðræði.
\"Við vorum í fullum rétti til að bregðast við. Skólameistarar bera ábyrgð á skólastarfi og hag nemenda. Það er líka margt sem bendir til að unga fólkið sem skrifaði undir framboðið hans hafi ekki vitað hvað það var að skrifa undir. Reglurnar munu vera þannig að sá sem skráir nafn sitt á blað til að styðja einn frambjóðanda fyrir kosningar getur ekki stutt annan síðar. Það er eitt af því sem gerir þetta að alvörumáli,\" segir Sigríður Huld.
\"Þetta er vinnustaður nemenda og kennara, þú gengur ekki bara inn og heldur að þú ráðir sjálfur hvað fer fram þar inni, \" bætir skólemeistari VMA við.
Fyrr í dag spurði Hringbraut Ástþór Magnússon hvort rétt væri að honum hefði verið vísað út úr VMA vegna óánægju með söfnun undirskrifta hans fyrir forsetaframboð. Ástþór neitaði að það væri rétt.