Íþróttafréttamenn komnir í einkennilega herferð gegn mannvirkjum

Margir hafa furðað sig á ofsafengnum málflutningi nokkurra íþróttafréttamanna gegn íþróttamannvirkjum í Laugardal. Gildir það jafnt um Laugardalsvöllinn og Laugardalshöllina. Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamaður hjá RÚV, hefur lengi flutt einhliða „fréttir“ af ástandi íþróttamannvirkja í Laugardal og talað stöðu þeirra niður. Uppáhaldssetning Einars er að mannvirkin séu „barn síns tíma“ og þau gagnist ekki lengur. Þá er stöðugt talað um „þjóðarhöll“ sem sé ekki lengur hæf til að hýsa landleiki í handbolta og körfubolta.

Rétt er að hafa í huga að Laugardalshöllin er ekki skilgreind sem „þjóðarhöll“ heldur einfaldlega íþróttahús í eigu Reykjavíkurborgar sem reyndar hefur gagnast sem helsti vettvangur landsleikja í þessum íþróttagreinum um árabil. Borginni ber engin sérstök skylda til að útvega íþróttahús sem uppfyllir allar kröfur alþjóðasamtaka um áhorfendarými fyrir svo mikinn fjölda að engar minnstu líkur eru á að rýmið yrði nokkru sinni nýtt til fulls. Rétt er að hafa í huga að Hafnarfjörður hefur verið einn helsti vettvangur handbolta á Íslandi og staða körfuboltans á Suðurnesjum er ávalt mjög sterk. Hvers vegna krefjast þessir íþróttafréttamenn þess ekki af þessum bæjarfélögum að þau leggi til aðstöðu fyrir landsleiki í umræddum boltaíþróttum? Það er engin skylda að spila landsleikina í Laugardalshöllinni.

Í síðustu viku birti Guðjón Guðmundsson, Gaupi, stóryrta grein um þá „þjóðarskömm“ að ekki væri búið að endurbyggja Laugardalsvöllinn og að reisa nýja íþróttahöll sem uppfyllti allar ýtrustu kröfur sem gerðar eru til milljónaþjóða. Beindi hann spjótum sínum að borgarstjóra Reykjavíkur og menntamálaráðherra og vændi þau um sleifarlag. Grein Gaupa var öfgakennd og algjörlega órökstudd. Maðurinn virtist ekki vera í neinu ástandi til að fjalla um stórmál af þessu tagi. Hann gerði þær kröfur til ríkis og borgar að lagt yrði í tugmilljarða fjárfestingar til að bæta aðstöðu fyrir iðkun keppnisíþrótta fyrir landsliðin í boltaíþróttum.

Auðvitað vilja allir hafa þessa aðstöðu sem besta. En frekjulegar og órökstuddar kröfur munu ekki hjálpa til við að þoka málum áfram. Gaupi gat ekki um þær fjárhæðir sem um ræðir. Talið er að endurbætur á Laugardalsvelli með þeim hætti sem sumir krefjast gætu numið 20 til 30 milljörðum króna og fullkomin keppnishöll eins og krafist er hjá milljónaþjóðum gæti kostað kringum 15 milljarða króna.

Ef ríki og borg eiga að ráðast í fjárútlát af þessu tagi upp á samtals kringum 40 milljarða, þá verða þeir sem heimta slíkt að benda á hvernig rétt sé að fjármagna það. Vill Gaupi hækka skatta á landsmenn til að þetta sé hægt eða vill hann skera niður útgjöld til hins opinbera? Hvaða útgjöld á þá að skera niður – til heilbrigðismála, menntamála eða samgöngumála?

Ef menn benda ekki á lausnir samhliða svona kröfugerð, þá er málflutningur þeirra innstæðulaus og ekkert nema gaspur.

Svipaðri umræðu var svo fram haldið í Kastljósi RÚV í gærkvöldi. Hún bætti svo sem engu við það sem áður er fram komið í einhliða málflutningi íþróttfréttamanna – öðru en því að þess er gætt að aldrei komi fram önnur sjónarmið en þeirra sem heimta og vilja ráðstafa fjármunum sem þeir hafa ekkert vald yfir. Það er auðvelt að eyða peningum annarra. Í þættinum voru tveir viðmælendur sem voru samstiga í einhliða kröfugerð sinni og svo stjórnandi þáttarins sem virtist vera með sömu fyrirframgefnu niðurstöðuna og þeir. Ekki var minnst á kostnaðinn við umrædd verkefni hvað þá hvernig ætti að mæta honum.

Hefði ekki verið óhætt að kalla til fulltrúa fleiri sjónarmiða? Sennilega ekki. Það hefði getað skemmt ásýnd herferðarinnar. Svo mun Einar Örn halda áfram að tala um „barn síns tíma“.