Ítalskt salat kristjáns jóhanns

Það þarf ekkert að flækja málin um of þegar slegið er í sígilt salat með grillsteikinni, en vel að merkja; á öllum metnaðarfullum matardiskum þekur salatið að minnsta kosti þriðjung flatarins.

Einn ástsælasti söngvari landsmanna um áralangt skeið, Kristján Jóhannsson deildi uppskrfti sinni að ítölsku salati með áhorfendum Hringbrautar á dögunum, en hann var þar gestur Sigurðar K. Kolbeinssonar í þættinum Grillspaðanum sem frumsýndir eru á miðvikudagskvöldum í sumar.

Hráefnið er einfalt; spínatblöð til jafns við klettasalat, kokteil-tómatar skornir í tvennt, góð lófafylli af mozzarellaosti sem er skorinn í litla bita, maldon-salt og pipar með góðri slettu af ólívuolíu og smávegis dassi af balsamiki til að tóna salatið til.

Hráefninu er hrært saman svo úr verður úrvals salat.

Grazie a voi!