Íslenskur hlutabréfamarkaður styrkist. Útboð Síldarvinnslunnar mikill sigur

Útlit er fyrir að árið 2021 geti orðið enn eitt metárið á íslenskum hlutabréfamarkaði. Vaxandi áhuga gætir á innlendum hlutabréfum, bæði meðal almennings og fagfjárfesta. Mönnum er í fersku minni þegar yfir 9.000 aðilar keyptu hlutabréf í útboði Icelandair í fyrrahaust þrátt fyrir dökkt útlit í flugi og ferðaþjónustu þá.

Í síðustu viku var tilkynnt um niðurstöður í hlutafjárútboði Síldarvinnslunnar þar sem í boði voru hlutabréf fyrir þrjátíu milljarða en fram kom eftirspurn sem nam sextíu milljörðum króna. Nærri 7.000 aðilar óskuðu eftir að kaupa hlutabréf í félaginu. Þessi niðurstaða er mikill sigur fyrir Síldarvinnsluna og aðaleigendur fyrirtækisins. Hér er einnig um að ræða góðar fréttir fyrir íslenskan hlutabréfamarkað. Niðurstaðan er einnig vísbending um að útboð ríkisins á hlutafé í Íslandsbanka, sem verður á næstu vikum, muni ganga mjög vel og fjölga þátttakendum á innlendum hlutabréfamarkaði enn frekar.

Vert er að hafa í huga að niðurrifsfólk reyndi að skemma fyrir í útboði Síldarvinnslunnar. Þannig hélt formaður VR áfram fyrri iðju sinni að hvetja almenning og sérstaklega lífeyrissjóði til að sniðganga útboðið. Miðað við glæsilegar niðurstöður útboðsins er ljóst að hann talaði fyrir daufum eyrum. Formaður VR var ekki tekinn alvarlega, á hann var ekki hlustað í þessu tilviki enda er ekki vitað til þess að hann búi yfir neinni marktækri þekkingu á fjárfestingum í verðbréfum.

Sérstaka athygli vakti að Lífeyrissjóður verslunarmanna mun hafa tekið myndarlegan þátt í útboði Síldarvinnslunnar þrátt fyrir hvatningu formanns VR um hið gagnstæða. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag. Formaðurinn hefur áður hótað stjórnarmönnum í sjóðnum, sem tilnefndir eru af VR, brottrekstri hlýði þeir formanninum ekki. Eins og kunnugt er felldu fulltrúar VR í stjórn sjóðsins tillögu um kaup á hlutabréfum í Icelandair síðastliðið haust í kjölfar hótanna formanns VR. Með því hafa þeir skaðað sjóðsfélaga lífeyrissjóðsins um milljarða króna vegna hækkana sem sjóðurinn missti af vegna ákvarðana fulltrúa VR í sjóðnum.

Þeir hafa greinilega ekki ætlað að brenna sig á því sama aftur og því látið skuggastjórnunartilburði formanns VR sem vind um eyrun þjóta að þessu sinni.