Íslensk stjórnvöld ákváðu 2007 að innleiða matvælalöggjöf Evrópu í íslensk lög enda fólust ríkir hagsmunir í útflutningi á ferskum fiski. En krafa Íslands um viðskiptafrelsi þýddi að samþykkja þurfti innflutning á fersku kjöti. Það hafa bæði Hæstiréttur og EFTA-dómstóllinn staðfest.
Ferðamenn og ferskt grænmeti hættulegra
Fylgjendur viðskiptafrelsis hafa bent á að sjúkdómar koma frekar með fólki en kjöti. Óttist menn dreifingu sýklalyfjaónæmra baktería ætti að huga meir að auknum ferðalögum Íslendinga og miklum fjöldi ferðamanna hér á landi. Þá hefur verið bent á að mun meiri líkur séu á að sýklalyfjaónæmar bakteríur berist í fólk með fersku grænmeti en kjöti. Innflutningur á grænmeti hefur verið frjáls áratugum saman án þess að það hafi skaðað.
En auðvitað vilja ekki allir viðskiptafrelsi. Bölsýni og einangrunarhyggja hefur sameinað Morgunblaðið, Bændablaðið, Útvarp Sögu og Heimssýn gegn innflutningi á fersku kjöti. Það er farið með himinskautum og stór orð ekki spöruð.
Adolf og EES
Um myrkur Morgunblaðsins og Útvarps Sögu („stöðin sem varar við“) þarf ekki að ræða hér. Nú er það blað Bændasamtakanna, sem eru rekin að mestu fyrir skattfé, sem á vinninginn í ósmekklegheitum í leiðara í lok febrúar:
„Nei, peningalegir hagsmunir skulu sko ráða för, skítt með afleiðingarnar. Líf fólks og dýra á svo sannarlega ekki að fá að njóta hins fræga vafa í þessu tilfelli. Án efa hlýtur Hitler gamli að skrækja af fögnuði yfir þessari þróun, sitjandi á fjósbitanum hjá höfðingjanum í neðra.“
Þessu var svo auðvitað fylgt eftir í byrjun mars þegar Heimssýn,baráttusamtök gegn EES, birti frétt með fyrirsögninni „Sjúkdómar og dauði í boði EES“. Þar segir að EES komi í veg fyrir hreint land og að allt bendi til þess að afleiðingarnar verði sjúkdómar og dauði fjölda fólks.
Spánarkjötsveislur álykta
Vandræðaleg var síðan ályktun fjölsótts fundar Íslendinga á Kanaríeyjum. Fundurinn sem haldinn var síðustu helgi undir forystu Guðna Ágústsonar fyrrum landbúnaðaráðherra, skoraði á Alþingi og ríkisstjórnina að fresta öllum áformum um innflutning á hráu kjöti frá Evrópusambandslöndum vegna núverandi framleiðsluhátta landbúnaðarvara. Það ættu Suðurhafsbændur að vita sem dvelja þar öllum stundum, að Kanaríeyjar tilheyra Spáni þar er einna mest sýklalyfjanotkun Evrópu. Kjötið sem þeir borða þar á fundum með góðri lyst ætti ekki að bjóða fólki hér uppi á Klaka. Engar fregnir hafa borist af því hvort Guðna hafi orðið meint af Spánarkjötinu sem hann úðar í sig þar suður frá.