Algert hrun hefur orðið í íslenska refastofninum frá árunum 2009 til 2013. Heimamenn í Fljótavík á Hornströndum segja að víkin hafi verið þéttsetin refum en nú séu flestir þeirra horfnir og grenin tóm. Vart varð við tófu þar í síðustu viku en hún fannst síðan dauð við ósinn.
Þetta kemur fram á vefmiðlinum stundin.is í dag en þar segir að svipaða sögu sé að segja annars staðar af Hornströndum þar sem refir hafi flosnað upp af óðulum sínum og margir þeirra drepist. Þessa dagana sé rannsóknateymi vísindamanna á Hornströndum að rannsaka hvað hafi farið úrskeiðis.
Á vefnum má lesa að árið 2008 hafi verið talið að um 14 þúsund refir væru í íslenska stofninum, en aðeins tveimur árum seinna hafi hannverið kominn niður í 8 til 9 þúsund dýr. Þessi þróun hafi haldið áfram til ársins 2013 þegar svo virtist sem það hægði á þróuninni. Á síðasta ári hafi þó vart við mikinn yrðlingadauða. Engin skýring sé á þessu ástandi sem þekkist um allt land.
Refir eru alfriðaðir á Hornströndum en annars staðar er stofninum haldið niðri af refaskyttum. Refir á Hornströndum hafa með tímanum orðið mjög gæfir og sumstaðar éta þeir úr lófa ferðamanna. Þetta á sérstaklega við um Hornvík og nágrenni. Göngufólk sem átti leið um Hesteyrarfjörð, Kjaransvík, Fljótavík og Aðalvík fyrir nokkrum dögum varð vart við örfáa refi sem flestir héldu sig fjarri. Að mati þeirra sem til þekkja hefur þarna orðið gjörbreyting og hrun í stofninum.