\"Það sem er einna áhugaverðast við þessa rannsókn er sú niðurstaða að feður sem hafa skilið við barnsmæður sínar og skipta samvistatíma við börnin sín jafnt við mæðurnar eru betri í samskiptum við börnin sín en þeir pabbar sem búa með barnsmæðrunum.\"
Þetta segir doktor Ársæll Arnarsson, prófessor í sálfræði við Háskólann á Akureyri um niðurstöður nýrrar samanburðarrannsóknar í viðtali við Hringbraut.
Hvernig túlkar hann þetta?
\"Ef mæðurnar eru til staðar gæti verið að pabbarnir lái mæðurnar frekar um samskiptin. En þegar pabbar þurfa að standa á eigin fótum í foreldrahlutverkinu þá sýna þeir hvað í þeim býr.\"
Bestu pabbar í heimi!
Halda má fram að íslenskir pabbar séu nú bestu pabbar í heimi út frá sjónarhóli barna sem spurð voru sömu spurningar í 42 löndum. Alls voru 220.000 börn um allan heim rannsökuð, þar af um 12.000 hér innanlands. Spurt var um samskipti þeirra við foreldra sína og enn er það svo að mæðurnar mælast betri foreldrar en pabbar. Íslenskar mömmur eru eftir aldurshópum 2% til 13% betri en íslenskir pabbar.
Niðurstöðurnar birtust í gær í skýrslu um Heilsu og lífskjör skólabarna. Hún er unnin á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Ársæll segir að mikil breyting hafi orðið til batnaðar hjá íslenskum pöbbum á skömmum tíma. Hann telur að feðraorlofið sé þar ein lykilbreytan. Í dag ætti vinnuveitandi svo eitt dæmi sé tekið að reikna með að feður ekki síður en mæður séu heima hjá veiku barni. \"Það hefur ekki alltaf verið þannig. Auðvitað er langt í land að fullu jafnrétti sé náð en við erum að mælast sem efsta þjóðin á jafnréttisskalanum í alþjóðlegum samanburði. Allir græða á auknu jafnrétti, þessi rannsókn sýnir það.\"
Einsdæmi í rannsóknasögunni
Um aðferðafræði rannsóknarinnmar segir Ársæll að alls hafi einföld fimm punkta skala spurning verið lögð fyrir barnahópinn.Þar hafi verið spurt um samskipti barna við móður, föður, stjúpmóður eða stjúpföður. \"Það er mjög áthyglisvert að íslenskir pabbar skuli mælast á toppnum í öllum þremur aldurshópunum.\"
Aldrei áður hefur ein og sama þjóðin skorað hæst í öllum aldurflokkum.
\"En svo veit maður ekkert hvað gerist ef hér verður margra ára góðæri með mikilli vinnu og því öllu. Það er ekki víst að það yrði til bóta fyrir samskipti foreldra og barna,\" segir dr. Ársæll Arnarsson sálfræðingur og prófessor við HA.
Aðrar þjóðir sem fá góða einkunn sem pabbar eru Svíar, Hollendingar og Úkraínumenn. Ekki er endilega samband við frjálslyndi, íihaldssemi, trúarbrögð eða efnahag ríkja.
Viðtal: Björn Þorláksson