Allir Íslendingar elska kjötsúpu, enda eiga allar íslenskar fjölskyldur sína uppáhalds uppskrift af kjötsúpunni sinni. Hún vekur góðar minningar, kallar fram bros og yljar hjartanu jafnt sem hún er bragðgóð, seðjandi og næringarrík. Kjötsúpudagurinn er haldinn af veitinga- og verslunarmönnum á Skólavörðustíg með stuðningi bænda. Upprunalega var dagurinn fyrst haldinn árið 2002 þegar Ófeigur Björnsson í Ófeigi gullsmiðju og Jóhann Jónsson í Ostabúðinni leiddu saman hesta sína til að gera daginn að veruleika. Fyrsti vetrardagur varð fyrir valinu þar sem móðir Ófeigs hafði alltaf gert kjötsúpu þann dag. Segja má að Kjötsúpudagurinn sé ein af fyrstu sjálfssprottnu hátíðunum í miðbænum sem hefur svo sannarlega laðað að gesti og gangandi en árlega koma um tíu þúsund manns til að bragða á hinum margskonar tegundum af íslenskri kjötsúpu, hver með sínum áherslum og brögðum.
Íslenska kjötsúpan er í grunninn alltaf eins, en samt einhvern veginn aldrei eins því hver og einn á sitt leyndarmál í uppskriftinni af sinni súpu. Öll eigum við okkar uppáhaldssúpu, en í hverju eldhúsi leynast sérstakar uppskriftir og leynihráefni sem gera hverja súpu einstaka á sinn hátt. Það á svo sannarlega við um súpurnar sem verða í boði á Skólavörðustígnum í dag á milli klukkan 13–16.
Eftirfarandi veitingahús taka þátt í Kjötsúpudeginum í ár:
Kaffi Loki
Krua Thai
Sjávargrillið
Snaps
Ostabúðin veisluþjónusta
Reykjavík Fish