Bjarg íbúðafélag, sem er í eigu Alþýðusambands Íslands og BSRB, keypti á dögunum ódýrt erlent húsnæði, einingahús frá Lettlandi, sem það hyggst flytja til landsins. Samtök iðnaðarins hafa gagnrýnt þessa ákvörðun og harma að Bjarg styðji ekki fremur við íslensk fyrirtæki í byggingariðnaði. SI segja það sameiginlega hagsmuni atvinnurekenda og launþega að skapa sem flest störf og sem mest verðmæti á Íslandi.
„Við höfum ekki fengið önnur svör en þau að þau séu bundin af því að byggja eins hagstætt og hægt er. Í þeim orðum felst að mínu mati að þá sé hér íslensk vara, hún sé of dýr. Af hverju er hún of dýr? Nú meðal annars vegna þess að hún er framleidd hér fyrir laun sem eru mörgum sinnum hærri heldur en í þeim löndum sem á síðan að fara að kaupa þjónustu af,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, nýendurkjörinn formaður Samtaka iðnaðarins.
Guðrún var gestur Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöld.
Aðspurð um hvort þarna gæti tvöfalds siðgæðis af hálfu verkalýðshreyfingarinnar segir Guðrún: „Já að vissu leyti. Hver á að kaupa íslenska vöru ef verkalýðshreyfingin treystir sér ekki til þess? Á sama tíma eru þau að biðja fyrirtækin sem eru að selja þessa vöru, jafnvel glugga, hurðir, innréttingar og hús, um hærri laun, en treysta sér ekki til að versla við fyrirtækin.“
Innflutt einingahús við hliðina á einingaverksmiðju
Guðrún segir að einnig verði að líta til umhverfis- og loftslagsmála. „Svo hef ég líka gagnrýnt það að það á að fara að flytja inn einingahús til að reisa upp á Akranesi við hliðina á einingaverksmiðju sem þar er. Af því að umhverfismálin eru alltaf að verða stærri og stærri þáttur í öllu okkar starfi hjá Samtökum iðnaðarins, umhverfis- og loftslagsmálin, þá finnst mér það líka skjóta svolítið skökku við af hverju við ættum að fara að flytja inn einingar húsa yfir höf og lönd til að reisa við hliðina á einingaverksmiðju á Akranesi,“ segir Guðrún og bætir við að kolefnisfótspor sé eitthvað sem SI verði að taka tillit til í síauknum mæli.
Viðtalið við Guðrúnu í heild sinni er að finna hér: