Ís­lensk sjúkra­bif­reið notuð til að búa til klám: „Get ég átt von á því að ef ég þarf sjúkra­bíl að ný­búið sé að stunda kyn­líf í honum?“

Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst ábending um upptöku á erótísku efni sem fram fór í sjúkrabifreið hérlendis. Slökkviliðið segist líta málið alvarlegum augum og að rannsókn á málinu hafi verið sett í gang.

Það er DV sem greindi fyrst frá en DV barst ábending um að íslensk kona og maður hafi tekið upp klámefni í sjúkrabíl í eigu slökkviliðsins. Var konan í hlutverki sjúklings í myndbandinu en maðurinn í hlutverki sjúkraflutningamanns

Upplýsingafulltrúi slökkviliðsins segir að ábending hafi borist um málið inn á borð byggðarsamlagsins og að málið hafi verið rannsakað. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að ekkert benti til þess að bifreiðin væri í eigu eða rekstri hjá SHS en þó greinilega um sjúkrabifreið að ræða. Þá hafi myndbandið annaðhvort verið tekið upp í sjúkrabíl sem staðsettur er á landsbyggðinni eða mögulega í bíl sem SHS hefði selt frá sér.

Aðilinn sem sendi inn ábendingu á DV segir að sér hefði misboðið það að sjúkrabifreið hafi verið nýtt sem tökustaður fyrir erótískt efni og þá einnig ef sjúkraflutningamenn hefðu mögulega verið þátttakendur í slíku.

„Get ég átt von á því að ef ég þarf sjúkrabíl að nýbúið sé að stunda kynlíf í honum?“ var haft eftir aðilanum en það verður að segjast að spurning hans er skiljanleg.