Íslensk áhrif eru mikil þegar skoðaður er listi þeirra kvikmynda sem nutu mestrar aðsóknar í bíóhúsum í Bandaríkjunum um helgina. Aldrei hefur sú staða áður komið upp að tvær myndir sem Íslendingar koma að nái inn á Topp-fimm listann í Bandaríkjunum en sú er raunin núna. Mynd Baltasars, Everest, komst strax í 5. sæti listans um helgina. The Perfect Guy, mynd sem Atli Örvarsson samdi tónlist við í félagi við annað tónskáld og var frumsýnd 11. september sl. er í 4.sæti listans. Tekjur myndanna tveggja má sjá hér.
The Perfect Guy skapar sérstöðu í menningarsögulegu tilliti þar sem tónlistin við myndina var að miklu leyti tekin upp í menningarhúsinu Hofi á Akureyri undir stjórn Atla Örvarssonar. Íslenskir hljóðfæraleikarar sáu um flutning tónlistar. Þá má geta þess að ekki einasta leikstýrir Baltasar Kormákur Everest með glæsibrag heldur leikur Ingvar E. Sigurðsson eftirminnilegt hlutverk rússneskrar hetju í myndinni. Atli Örvarsson hefur einnig fengið mikið lof fyrir tónlistina við The Perfect Guy en hann samdi tónlist fyrir bíómyndina Hrúta og er yfirtónskáld í Chigaco Fire þáttaröðinni svo nokkuð sé nefnt.
Atli tók nýverið þá ákvörðun að flytja til Akureyrar frá Los Angeles þar sem hann hefur búið með bandrískri eiginkonu sinni og tveimur börnum lengi. Um þá ákvörðun Atla má lesa hér.