„Íslendingar skera sig úr með áberandi hætti meðal OECD ríkjanna í mikilli notkun þunglyndislyfja, sem er langtum meiri hér en í nokkru öðru landi samkvæmt nýjum samanburði OECD.“
Þetta skrifar Ómar Friðriksson er hann fjallar um nýjustu skýrslu OECD í Sviðsljósinu í Morgunblaðinu.
Samkvæmt OECD hafa Íslendingar um árabil notað þunglyndislyf mest af þjóðum innan OECD. Í nýrri skýrslu kemur fram að notkunin hér á landi færist enn í aukana og árið 2018 var 141 dagskammtur á hverja þúsund íbúa á meðan meðalnotkunin í OECD löndunum var 103 dagskammtar.
Á eftir Íslandi kemur Kanada með 110 dagskammta þunglyndislyfja á hverja þúsund íbúa.
Þá kemur fram í skýrslunni að reykingar séu hvergi minni í Evrópu en á Íslandi. Það séu 8,6% fullorðinna Íslendinga sem reykja en árið á undan reyktu 9,7% fullorðinna.
Áfengisneysla Íslendinga er nálægt meðaltali OECD ríkjanna og hefur hún aukist frá árinu 2016.
Þá segir einnig í frétt Morgunblaðsins um skýrsluna: „Töluverður munur er einnig á offitu meðal fullorðinna samkvæmt skýrslu OECD. Mikill meirihluti fullorðinna Íslendinga eða 65,5% telst vera of þungur samkvæmt samanburðinum, sem er nokkru yfir meðaltali 36 aðildarríkja OECD (58,2%)“
Hægt er að lesa ítarlegri greiningu á skýrslu OECD í Morgunblaðinu.