Rithöfundurinn, þýðandinn og fræðimaðurinn Rúnar Helgi Vignisson hefur vakið máls á afar viðkvæmu efni sem hefur leitt til mikilla viðbragða. Rúnar er dósent við HÍ, kennir ritlist, er sjálfur mikill íþróttamaður og í góðu formi. Því til staðfestingar má nefna að ekki alls fyrir löngu greindi Höskuldur Þráinsson, prófessor í íslenskum fræðum við sama skóla og dósentinn, frá því hvernig Rúnar sem rekur uppruna sinn til Vestfjarða hafi elt Höskuld uppi í skíðagöngu um páskana og tætt fram úr honum. Það er því ekki fituna að finna hjá Rúnari en hann hefur miklar áhyggjur af lýðheilsu landsmanna, því holdafari sem einkenni of stóran hluta þjóðarinnar.
\"Eitt það ömurlegasta sem ég hef orðið vitni að um mína daga er offitufaraldurinn á Íslandi. Ég verð oft miður mín þegar ég horfi upp á þessa afskræmingu landa minna. Þetta er auðvitað verst fyrir einstaklingana sjálfa vegna þess að þetta rýrir lífsgæði þeirra á margan máta en um leið er þetta ein alvarlegasta atlaga síðari tíma að velferð okkar allra sem landið byggjum. Offita er langt frá því að vera einkamál,\" skrifaði Rúnar Helgi.
Hann hefur fengið mikil og blendin viðbrögð. Í hópi þeirra sem hrósa honum á facebook þar sem ummælin féllu, er hjúkrunarfræðingur sem segir mikilvægt að á þetta sé bent, enda óumdeild staðreynd. En sumir hjóla í Rúnar og telja að hann hefði betur gætt orða sinna og framsetningar. Þeirra á meðal er Sif Jóhannsdóttir sem segir að þetta sé ekki vísindalega staðfest. \"Ég hef líka áhyggjur af þeim gleraugum sem þú setur upp þegar þú horfir á íslenskt samfélag ef þetta er eitt af því ömurlegasta sem þú hefur séð hér á Íslandi!\"
Dósentinn svarar að offita feli ekki í sér líkamsvirðingu. \"Líkamsvirðingartalið getur verið réttlæting fyfir því að taka ekki á vandanum. Og vel að merkja, ég er ekki að tala um fólk sem er nokkrum kílóum of þungt heldur það sem hefur algjörlega misst tökin.\"
Svarar Sif þá að þótt fleiri séu haldnir fitufælni og fitufordómum, þá geri það skoðun ritlistarsérfræðingsins ekki betri eða réttari.
Sigurður Svavarsson blandar sér í umræðuna og skrifar: \"Ansi finnst mér þú stóryrtur þarna, félagi Rúnar Helgi - og einfalda myndina ærið mikið. Vissulega er þarna lýðheilsufarslegt vandamál á ferðinni, sem þarf að vaka yfir, en ég hef orðið vitni að svo ótalmörgu \"ömurlegra\" á minni tíð. Svo hefur margoft komið í ljós að tengsl milli holdafars og heilsu/heilbrigðis eru með ýmsu móti; grannvaxið fólk er ekki endilega hraust og þéttvaxnir heldur ekki endilega illa settir heilsufarslega. Hófstillt nálgun er best í þessu máli eins og öðrum, vilji maður ná árangri, að mínu mati.\"
Vegna orða dósentsins hefur komið fram hjá Vísi að fækkað hafi um eina konu í ritlistarhópi Rúnars. Segist sú á þræði dósentsins ætla að sveipa sig búrku. Rúnar Helgi segist jafnframt telja það skyldu sína að rjúfa þöggun sem ríki um þennan málaflokk þó sársaukafullt kunni að reynast fyrir suma. „Vonandi vekja skrif mín okkur sem þjóð til umhugsunar um hvert við stefnum í lýðheilsumálum,\" segir Rúnar á Vísi en læknar hafa nokkuð fjalað um skaðsemi offitu að undanförnu.
Þá er rétt að geta þess að Rúnar Helgi hefur mildað færslu sína og er nú ekki lengur minnst á afskræmingu í texta hans.