Skrif Guðbergs Bergssonar rithöfundar í DV í gær um nauðgun sem Hallgrímur Helgason rithöfundur varð fyrir á unga aldri en upplýsti nýverið um, er algengasta umræðuefnið á facebook síðasta sólarhring eða svo. Koma fáir Guðbergi til varnar.
Eins og Hringbraut greindi frá í gær þykja skrif Guðbergs viðurstyggileg.
Ingibjörg Þórðardóttir, varaþingmaður VG í Norðausturkjördæmi, sem sat á þingi um skeið fyrir nokkrum dögum, líkir umdeildum viðhorfum nokkurra karla á Íslandi undanfarið við íþróttamót.
„Íslandsmeistaramótið í mannvonsku 2015 er nú æsispennandi. Gústaf Níelsson og Guðbergur Bergsson eru hnífjafnir í efsta sætinu,“ segir Ingibjörg í færslu á facebook.
Með því að kynna Gústav til sögunnar bendir varaþingmaðurinn á þau viðhorf sem Gústav barðist fyrir á landsfundi sjálfstæðismanna um helgina en varð frá að hvera, viðhorf sem varða aðgreiningu útlendinga á Íslandi.
Ingibjörg nefnir svo þriðja karlinn til sögunnar sem sitji nú í þriðja sæti á Íslandsmeistaramótinu í mannvonsku. Hann heiti Gylfi Ægisson og fái sætið vegna andúðar hans á samkynhneigðum. Varaþingmaðurinn telur þó að Gylfi gæti náð silfri eða gulli með því að herða sig.
„Hann gæti náð sér á strik með góðu hommahatri á aðventunni.“