Ísland rekur 22 sendiskrifstofur víða um heim með 54 útsendum starfsmönnum. Til samanburðar má nefna að Malta sem hefur svipaðan íbúafjölda og Ísland rekur 28 sendiráð með 75 starfsmönnum og Lúxemborg sem er 36 með 63 starfsmenn. Þetta kemur fram í þættinum Heimsljósi á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í kvöld, en hann er frumsýndur klukkan 21.45 undir stjórn Sólveigar Ólafsdóttur.
Stefán Haukur Jóhannesson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis, einn gesta þáttarins segir því mikinn misskilning að utanríkisþjónusta Íslands sé of umfangsmikil eða dýr í rekstri; raunin sé að kostnaður hafi verið skorinn niður um 30% síðan 2007 og samt takist Íslandi að halda úti mjög góðri og metnaðarfullri þjónustu.
Undir þetta taka Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og Svavar Gestsson fyrrverandi sendiherrar. Þau segja bæði þörf á að auka þjónustuna og fjölga sendiráðum, sérstaklega utan Evrópu. Hinsvegar megi alveg stokka upp staðarvali og sendinefndum eftir því hvar hagsmunir Íslandsd séu mestir hverju sinni.
Þá bendir Stefán Haukur á að hér á landi starfi 13 sendiráð sem öll séu miklu betur mönnuð heldur en sendiráð Íslands víða um heim, og þau komi þannig með arð inn í íslenskt samfélag. Sem dæmi megi nefna að starfsmenn sendiráðsins í Washington eru fimm með staðarráðnum starfsmönnum sem sinna að auki fjölmörgum löndum Suður-Ameríku meðan starfsmenn bandaríska sendiráðsins á Íslandi séu 60 talsins og sinni aðeins samskiptum við Ísland.