Með innleiðingu þriðja orkupakkans fær Ísland sæti við borðið í einni af stofnunum Evrópusambandsins. Þeirri setu fylgir málfrelsi og tillöguréttur en ekki atkvæði. Þetta er merkt og þýðingarmikið nýmæli í þátttöku Íslands í starfi Evrópusambandsins. En því hefur ekki verið gefinn gaumur sem skyldi.
Í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið er Ísland aðili að innri markaði Evrópusambandsins. Hann er reyndar þungamiðjan í sambandinu. Aðildin er svo umfangsmikil að lagareglur Evrópusambandsins snerta nær öll svið í íslenskum þjóðarbúskap.
Hugsanleg ákvörðun um fulla aðild að sambandinu snýst því um minna skref en tekið var með aðildinni að innri markaðnum fyrir aldarfjórðungi. Sú grundvallarbreyting yrði þó við fulla aðild að við fengjum sæti við borðið.
Að því leyti er lýðræðishalli á þessari aukaaðild að Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn að við tökum við og innleiðum lagareglur innri markaðarins án þess að sitja við borðið. Við komum hvorki að undirbúningi ákvarðana né umræðu um þær. Og við höfum ekki atkvæðisrétt.
Í Atlantshafsbandalaginu erum við að mestu með sömu Evrópuþjóðunum. En þar eigum við sæti við borðið með fullum réttindum.
Markvert skref til dýpri og virkari þátttöku í einni af stofnunum Evrópusambandsins
En nú tökum við áhugavert skref í átt til virkari þátttöku. Innleiðing þriðja orkupakkans felur í sér að Ísland fær fulltrúa í stjórn Samstarfsstofnunar eftirlitsaðila á orkumarkaði innan Evrópusambandsins. Það á einnig við um nefndir og starfshópa sem vinna að undirbúningi ákvarðana. Þessari setu við borðið fylgir þó ekki atkvæðisréttur.
Eftirlitsstofnun EFTA fær sams konar réttindi. Og Samstarfsstofnun Evrópusambandsins fær gagnkvæm réttindi innan Eftirlitsstofnunar EFTA þegar það á við.
Samstarfsstofnunin gegnir þýðingarmiklu hlutverki á orkumarkaði Evrópu. Hún getur innan afmarkaðra heimilda tekið lagalega bindandi ákvarðanir, gefið út tilmæli og sent frá sér álit. Eftirlitsstofnun EFTA tekur síðan formlega þær ákvarðanir sem gilda eiga gagnvart Íslandi í samræmi við ákvarðanir Samstarfsstofnunarinnar.
Orkustofnun fer með eftirlitshlutverkið hér á landi og verður í raun aðili að þessari Samstarfsstofnun innan Evrópusambandsins. Það er því hún sem fær sæti við borðið. Ísland ræður yfir mikilli þekkingu á sviði orkumála og alveg sérstaklega að því er varðar allt það sem veit að vistvænni orkuframleiðslu. Við höfum því væntanlega meira fram að færa við borðið en stærð þjóðarinnar segir beint til um.
Ísland hefur meiri áhrif með því að sitja við borðið en að vera fjarverandi
En kjarni málsins er sá að með innleiðingu þriðja orkupakkans erum við að taka skref til dýpri þátttöku innan Evrópusambandsins en fram til þessa, þótt á afmörkuðu sviði sé. Það dregur úr þeim lýðræðishalla sem í því felst að taka þátt án fullrar aðildar. Það er því rík ástæða til að fagna þessum áfanga.
Reynslan af virkri þátttöku í einni af stofnunum Evrópusambandsins mun svo koma að góðu haldi í þeim umræðum sem óhjákvæmilega verða á næstu misserum og árum um gildi þess fyrir Ísland að eiga sæti við borðið innan Evrópusambandsins eins og innan Atlantshafsbandalagsins.
Áhrif Íslands á alþjóðavettvangi verða alltaf í einhverju hlutfalli við stærð landsins. Sumir segja að fyrir þá sök sé best að halda landinu til hlés og taka ekki þátt. En veruleikinn er þó sá að við höfum meiri áhrif þar sem við sitjum við borðið en þar sem við erum fjarstödd.