Á hverjum þeim stað sem við kjósum til að koma okkur upp hreiðri virðist innbyggt í eðli mannskepnunnar, að við tölum fremur upp þau gæði sem fylgja búsetu vorri, kjósum meðvitað að líta fremur fram hjá göllunum en hitt, ræðum gallana helst ekki út á við en það fylgir þó e.t.v.minni byggðum fremur en stærri. Held þetta viðhorf geti tengst sáttinni sem maður þarf að finna til að lifa gifturíku lífi. Gæti líka tengst sjálfbjargarhvötinni, að horfa fram og vera bjartsýnn, líta framhjá því sem pirrar mann. Það hefur réttilega verið talið að leiði til betra lífs en að vera sífellt vælandi, en svo er hitt að án leitarinnar í lífinu er ekkert alvöru ferðalag. Og án gagnrýninnar hugsunar erum við hálfvitar. Lífið er endalaus klemma.
Þannig mætti flokka það undir öfgar að tala endalaust upp kosti tiltekinnar byggðar eða svæðis, líta umræður um galla sem fylgja búsetunni mjög illum augum. Það eru samt dæmi um byggðir, þar sem íbúar eru taldir fremja griðrof ef þeir gagnrýna sitt eigið samfélag. Það á bæði við þætti sem mannskepnan hefur stjórn á eða aðra sem hún hefur ekki stjórn á, hnattstaða og náttúruöfl eru í þeim hópi. Ég hef komið í byggð þar sem allir eru svo uppteknir af því að selja mér að þorpið þeirra sé æði, að manni finnst maður hafa dottið inn í sértrúarsöfnuð. Og mér finnst sértrúarsöfnuðir að jafnaði ekki sérstaklega áhugaverðir. Sú er ein ástæða þess að ég fíla ekki Sjálfstæðisflokkinn.
Veðrið er vitaskuld mikið alvörumál hér á landi, ekki síður en pólitíkin, alvöruefni í metingi um þau takmörkuðu lífsgæði sem við bítumst um. Sérstakt alvöruefni er veðurumræða hér á landi vegna þess hve veðrið er sjaldan gott. Það þarf ekki nema fimm stiga hita og sólarglennu til að fréttamenn ríkisins aki niður á Austurvöll með tökumanni og sýni okkur myndir af börnum að borða ís í kvöldfréttum. Allir hríðskjálfandi en það að borða ís er \"steitment\" um að okkur er ekki kalt, steitment um að við erum sóldýrkendur og steitment um að við höfum það gott!
Við seilumst svo langt að nefna skordýraplágur sem mikið happ að losna við þegar vatn frýs í röri. Og ég hef ferðast um landið, bæði á vetrum og sumrum. Ég hef stoppað á stað til að taka bensín. Ég hef spurt hvernig sumarið eða veturinn hafi verið veðurfarslega og fengið merkingarþrungið augnaráð frá afgreiðslufólkinu sem hefur hálfhvíslað í mín eyru, grafalvarlegt á svipinn, að besta veður í heimi sé að finna í þessu þorpi. En ég treysti eigi að síður opinberum tölum Veðurstofunnar en þegar sértrúarsöfnuðir taka sig saman í því að segja veðurfréttir.
Í Mývatnssveitinni var oft gríðarkalt á vetrum þegar ég ólst þar upp. Frost fór stundum í 20- 30 stig. Að veiða silung úti á ísilögðu vatninu í þvílíku fimbulfrosti kallaði vitaskuld á sérstakan búnað, til dæmis var voði að anda kalda loftinu beint niður í lungu. Bæði börn, fullorðnir og gamalmenni önduðu köldustu dagana í gegnum trefla, klúta, rúllukraga eða annað tiltækt, annars kviknaði sviði í lungum. Maður pakkaði sér inn í blessaða ullina frá toppi til táar, samt er nokkur hluti minninga minna úr sveitinni tengdur kulda og kláða hans vegna eftir að heim var komið í hitaveituhlýjuna og líf færðist aftur í kalda limi.
En maður tók þessu eins og hverju öðru hundsbiti. Það gat hjálpað til að vinna á kuldanum að láta augun reika um stórbrotna náttúru Mývatnssveitar. Fyrst og fremst bjó þó fólkið þarna af því að það hafði fæðst þarna. Sumrin voru aftur á móti sólrík og hlý, furðulöng líka miðað við sum síðari tíma vonbrigði. Á sumrum synti maður nakinn í vatninu og hló út í eitt. Þá voru reyndar flugur í lofti en maður lærði að búa við þær. Makinn á sumrum, kappklæddur á vetrum. Á vetrum vorum við svo dúðuð að minnti á fjölklónaða útgáfa af Michelin manninum. Mývatnssveit var og er svæði öfganna, enda í 300 metra hæð yfir sjávarmáli. En maður bjó þarna af því að maður fæddist þarna , með æðruleysið að vopni. Það er ekki eins og að börn taki það upp hjá sjálfum sér að flytja ein og sér á hlýrri og suðlægari slóðir. Og þegar allt kemur til alls þýðir hnattstaða Íslands endalausar öfgar. Öfgar í veðri, öfgar í birtu. Þess vegna erum við eins og við erum.
Að loknu stúdentsprófi flutti maður suður og þaðan út og aftur suður heim og svo aftur norður - til Akureyrar. Á Akureyri hef ég nú búið sl. 20 ár ef undan er skilið eitt ár í Wales. Komum við þá loks að innsta kjarna þessa pistils:
Ég tók strax eftir því þegar ég flutti frá Reykjavík til Akureyrar að orðræðan um veðrið var önnur hér en fyrir sunnan. Á Akureyri ræða innfæddir á vetrum allar þessar froststillur eins og þær séu sérstakt djásn. Hermt er að það séu sérstök lífsgæði að fara í göngutúra í skítakulda, geta skafið af rúðu án þess að fjúka. Kyrrt og fallegt útsýni er talað upp, kaldir vetur eru talaðir upp í von um að vinna aðra á það band að kuldinn sé eftirsóknarverð lífsgæði.
Akureyringar hafa lært að láta sér líka illa við rigningu og umhleypingar. Kannski vegna þess að nóg er af rigningu og umhleypingum í Reykjavík, undir niðri mallar góðlátlegur rígur. En það er sjaldan rætt opinberlega hér fyrir norðan að í Reykjavík er meiri hiti en hér, langflesta mánuði ársins að jafnaði.
Nú er ég alveg sammála vinum mínum hér á Akureyri um að hvass vindur, raki, rigning, umhleypingar, slabb, allt eru þetta hundleiðinleg fyrirbrigði sem einkenna suðvesturhornið frekar en Norðurland. En jafnaðarkuldinn hjá okkur Akureyringum í janúar var sá mesti í 21 ár. Því eru endimörk sett hvað hægt er lengi að hlusta á nágrannana mæra froststillurnar og skíðafærið í Hlíðarfjalli. Í stuttu máli sagt er snjór vesen, frost er vesen. Að búa við vesen þýðir ekki að maður reyni ekki að búa hérna áfram en það að þurfa að verja hálftíma í snjómokstur á dag, að finna ekki bílinn sinn undir snjósköflum, að skafa flesta daga út í eitt með glamrandi tennur, að þurfa að vera á jeppa til að komast leiðar sinnar um ómokaðar götur, allt er þetta vesen, alveg hellings vesen. Fari þessar froststillur í rass og rófu!
Íslenskt veður er ekki ástæða þess að við búum hérna, við búum hérna af því að við fæddumst hérna og kunnum lítið annað. Nú hefur þó alist upp ný kynslóð af ungu fólki sem lítur á veröldina alla sem leikvöll. Ein vanmetin ástæða í flótta menntaðra ungmenna út fyrir landsteinana á suðlægari slóðir er veðrið. Okkur finnst óþægilegt að ræða það og sumir halda að kísilmálmverksmiðja á Húsavík verði til þess að halda í unga Þingeyinga. Vitaskuld er það ekki þannig.
Ísland er flesta daga ársins skítapleis þegar kemur að veðri. En það þýðir ekki að kostir búsetunnar séu ekki fleiri en gallarnir. Veðrið er bara ekki í þeim hópi. Veðrið er verkefni, endalaust æðruleysisverkefni…
(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)