Er alþingisrásin þvagrás íslands?

Eftir að hafa starfs míns vegna – ekki ánægjunnar vegna – fylgst með tugum klukkustunda af þingfundum Alþingis, umræðum um fjárlögin, verður mér líkt og flestum landsmönnum æ ljósara að stjórnmálamenning samtímans er ónýt.

Í stuttu máli sagt virðist vandinn liggja í því að meirihlutinn ræður og hann ræður einn, það er að segja hverju þjóðþingið kemur á dagskrá, öllum áherslum við stjórn samfélagsins.

Þetta verður til þess að minnihlutinn frústrerast mjög, líkt og við yrðum sjálf á okkar vinnustöðum ef ekkert væri litið til okkar hugsana, vinnu, sérþekkingar, framlags. Vopnið sem minnihlutinn hefur er þingtíminn sjálfur, að gernýta hann, hrópa upp, kvarta og kveina. Finna upphrópanir sem fréttamiðlarnir eru líklegir til að dorga upp og lyfta, vekja athygli á okkur sem hrópendum í eyðimörkinni. Það myndum við eflaust öll gera á ónýtum vinnustað ef aldrei væri hlustað á okkur. Því ólíkt flestum störfum er vart í boði fyrir þingmann að snúa sér til annara starfa þótt hann ráði engu í vinnunni sinni. A.m.k. er ekkert sérstaklega vinsælt að rjúfa þann trúnað sem á að vera milli þjóðar og þess þingmanns sem hún hefur kosið til að starfa í trúnaði fyrir og því eru sannarlega góð ráð dýr.

Salur alþingis, kaffistofa frústreraðra þingmanna, kimi ójafnræðis, ömurleika og hörmulegra skilaboða út í samfélagið.

Ekki alla daga ársins – en alltaf rétt fyrir jól. Þótt þarna stafi hellingur af góðu fólki sem hefur margt að segja - en minna að iðja.

Þetta á ekki að vera pólarísering á milli tveggja ólíkra heima - fjögur ár í senn.

Sjórnin hefur vitaskuld komið ýmsu góðu til leiðar. Með sama hætti hefur andstaðan oft staðið sig vel og innan um eru leiftrandi sprettir, manngæska og skynsemi eins og hún gerist fegurst.

En þetta kerfi er ónýtt. Á tímum árangurstengingar við vinnustundir, á tímum  mannvirðingar, á tímum þar sem upplýstu fólki hefur fjölgað mjög á landinu öllu og sá hópur veit hvernig best er að vinna – með upplýstu samtali, markvissri framtíðarsýn og samvinnu -  dylst fæstum hugur að ef ekki verða gerðar jafnræðislegar og lýðræðislegar umbætur senn, sekkur þetta land í sæ, gott og gjöfult sem það annars er frá náttúrunnar hendi.

Við fyrir utan sirkusinn bara nennum þessu ekki lengur. Hvað með ykkur, þingmenn sjálfir? Hve oft á að berja höfðinu við steininn, kallast það ekki geðveiki þegar maður gerir sama axarskaftið aftur og aftur í von um að ná fram jákvæðari niðurstöðu en síðast? Hvernig væri nú að ráðast á kerfið innan frá, brjóta það upp?

Það er talað um hið háa Alþingi en mér virðist frekar stefna í að alþingisrásin sem miðlar til okkar í beinni útsendingu því sem 63 þingmenn okkar eru að gera - eða ekki að gera - hljóti heitið þvagrás Íslands þar sem úrgangi og eiturefnum er spýtt framan í andlitið á landsmönnum.

Góður verkstjóri myndi deila ábyrgð, miðla málum, laða allt það besta fram í hverjum og einum.

Því það er ekki eins og að fólkið á Alþingi sé fífl. Það bara hegðar sér þannig. Vegna kerfisins og vegna þess að það stendur enginn alvöru leiðtogi í brúnni sem sér um að allir hafi nóg að skapa og iðja. Að öllum líði vel við vörslu almannahagsmuna.

Það verður að sundra þessu kerfi og stokka spilin upp á nýtt.

 (Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á Hringbraut)