Ísland er úldið saltkjöt

 

 

Nú þegar ráðherrar stjórnarflokkanna hafa lagt línur að helstu áherslum landsins á kjörtímabilinu og meira í pípunum, sandurinn rennur þó hratt í tímaglasinu, geta kjósendur nokk vitað fyrir hvers konar hugmyndafræði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks stendur. Í stuttu máli sagt: Fortíðarhyggju.

Þetta eru einangrunarflokkar sem ala á þjóðrembu og misskilningi á hugtakinu frelsi. Þeir gleyma að frelsi fylgir ábyrgð. Þeir hafa gleymt að þegar trúnaðarbrestur verður milli þings og þjóðar líkt og í hruninu er eina leiðin til að vinna gott veður á ný að biðjast afsökunar. En þvert á móti hafa þeir alltaf rifið kjaft. Vegna þess að þeir miskilja hugtakið ábyrgð. Og gleyma að tengja ábyrgð við frelsi.

Þessir flokkar eru tregir til að skipta um gjaldmiðil, tregir til að leiðrétta okurvexti. Það er vegna þess að flokkseigendurnir, ríka fólkið, hagnast á óbreyttu ástandi. Forráðamenn valdaflokkanna tveggja þakka það eigin uppruna og hæfileikum að Ísland er ágætis land. Oft er stutt í rasismann, a.m.k. meðal tiltekinna þingmanna þessara flokka. Annar flokkurinn sækir meginvöld sín til viðskiptalífsins en einkum til útgerðarinnar sem dælir methagnaði í greininni beint í eigin vasa. Þorri allra styrkja á bak við stjórnarflokkana kemur enda frá útgerðinni. Þingmenn þessara flokka lesa Moggann og DV og halda að þeir séu með New York Times í höndunum. Annar flokkurinn lifir á misræmi atkvæðavægis. Það er hluti af trúarbrögðum að borða lambakjöt um helgar og því skemmtilegra sem það er feitara. Þeir hafa vanist því að tengsl  séu besta leiðin til að öðlast meira eða sitja á sínu. Í þeirra huga er það enn þannig að þeir sem ekki fylkja sér í raðir þessara tveggja flokka séu viðsjárverðir eða „pólitískir“. Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra fannst hún ekki pólitísk skýrslan þegar hann fékk þrjá vini sína innan Sjálfstæðisflokksins til að gera skýrslu um Rúv. Nei, hún hefði orðið pólitísk ef fólk úr öðrum flokkum hefði komið að gerð hennar!

Normið að vera í valdaflokkunum

Það er því ennþá norm að vera sjálfstæðismaður eða framsóknarmaður, hvað sem fylgiskannanir mæla. Meðan því er trúað munu oddamennirnir ekki seilast langt til breytinga blessaðir. Vegna brenglaðrar hugsunar sem tengist órofa áksrift að völdum og aðgangi að takmörkuðum gæðum sem ættu að vera sameiginleg en ekki eign valdaflokkanna, eru fulltrúar valdaflokkanna margir hverjir lesblindir á eigin þjóð. Stundum grillir þó í góða hugsun eins og tilvikið um nýju náttúruverndarlögin er dæmi um. Annars liggur áherslan á gamaldags atvinnugreinar, frumframleiðslu, stóriðju. Ferðaþjónustan hvorki styrkir flokkana það mikið að borgi sig að gefa henni gaum né heldur eru framsóknarmenn og sjálfstæðismenn það ráðandi í þeirri grein að þeir hafi mikinn áhuga á hinu almesta ævintýri sem rekið hefur á Íslands strendur.

Við vitum af hugmyndafræði þessara tveggja flokka að ef þeir halda áfram í ríkisstjórn að loknum næstu kosningum verða engar breytingar. Vitinu og sammannlegu réttlæti í formi lýðræðisumbóta verður skotið á frest. Tekjumunur mun aukast, heilbrigðiskerfið mun lenda í æ meiri vörn og það verður sótt enn dýpra í vasa sjúklinga.  Ísland allt er orðið að sjúklingi vegna þeirrar áherslu.  Enginn mun gera neitt til að breyta því að stór hluti landsmanna lifir undir hungurmörkum. Hagvöxtur mælist enda af meðaltali og ef vinirnir bólgna sem aldrei fyrr skipta nokkrir öryrkjar og þeirra bágu kjör litlu máli í samanburði.  Þetta er svona stutta greiningin í palladómsformi á ríkisstjórninni og hugmyndafræði þeirra -  eða öllu heldur skorti á hugmyndafræði,  skorti á framtíðarsýn sem margir kalla eftir.

Ónýt stjórnarandstaða

Víkur þá sögunni að stjórnarandstöðu. Gefum okkur að stjórnin sé gamaldags, en með hvaða orði er þá best að lýsa Samfylkingunni? Með því að hún sé ónýt? Hvernig er hægt að búa til stefnu til framtíðar þegar þrír af hverjum fjórum fyrrum kjósendum Samfó vilja Árna Pál burt úr embætti sem formann flokksins? Það er reyndar ekki vísindaleg niðurstaða  en ágiskun byggð á samanburði frá því sem var og því sem er. Sagan talar sínu máli. Frá og með  síðustu dögum Vinstri stjórnarinnar og varðar ábyrgð Samfó á örlögum nýrrar stjórnarskrár, frá og með afhroði Samfó í kosningunum síðast og frá og með óendanlega ósannfærandi máttleysi flokksins æ síðan í stjórnarandstöðunni hefur ríkisstjórninni ekki verið sýnt það aðhald sem þyrfti. Þar spilar inn í að ráðandi öfl innan dvergflokksins Samfó (skv. fylgiskönnunum núna) eru í raun hægri sinnuð. Þau hafa gleymt verkalýðnum og þeim armi sem boðinn var velkominn þegar kratar og alþýðubandalagsmenn sameinuðust í einn flokk og reis í hugtaki með Sjálfstæðisflokknum þar sem talað var um „turnana tvo“. Ekki verður annað séð en að turninn sé hruninn, enda hvert höfuðið upp á móti öðru innanflokks í fýlu eða sundurlyndi og tengist einum þræði kosningu um formann. Fólk er fúlt yfir að Árni Páll hafi ekki vikið úr embætti en enginn þingmanna hefur kjark til að segja það upphátt. Vegna þess að enginn segir neitt um það sem allir vita, álykta kjósendur að Samfó sé að óbreyttu ekki treystandi til að taka við stjórn landsins. Hreinskilni er ein undirstaða trausts.

... og hvað þá með restina?

Hvað þá með restina? VG er á sínum stað, ræðst að bjór og hvítvíni með offorsi, vill kvótavæða alla hluti, neitar að opna á ESB eins og svo margt annað, en heldur fylgislega sjó sem vinstri flokkur úti á kanti.

Um Bjarta framtíð er fátt annað að segja  en að heiti flokksins er öfugmæli miðað við fylgiskannanir sem benda til að flokkurinn sé að þurrkast út.

Þá eru eftir Píratar sem sumpart hafa ekki unnið sína stefnumótunarvinnu enn. Það hjálpar þeim í fylgiskönnunum, til dæmis vitum við ekki hvort Píratar eru hægri eða vinstri flokkur.  Það verður til  þess að bæði hægrimenn og vinstrimenn geta hakað við þá í skoðanakönnunum.

Svo boðar  Viðreisn mikla sókn sem bæði gæti veikt Sjálfstæðisflokkinn eða drepið Samfó endanlega.

Það sem stjórnarandstöðuflokkarnir eiga  sameiginlegt með meirihutanum er að yfirgripsmikill hugmyndafræðilegur skortur einkennir stefnu flestra afla. Sá skortur á andlegri og veraldlegri framtíðarsýn verður til þess að fæstir hlakka til þess að taka ákvörðun í kjörklefanum næst. Og á meðan töpum við samkeppnishæfi við nágrannaþjóðir, missum gott fólk úr landi. Diskóljósin loga vissulega en eigi að síður upplifa margir nú Ísland sem einn dragúldinn saltkjötsbita.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á Hringbraut)