Ísland: auðurinn bara fyrir útvalda

Íslensku bankarnir þrír hafa hagnast um tæpa 500 milljarða frá hruni. Kátt er enda í höllinni hjá hinum innvígðu, því himinhá toppalaun og ofurbónusar eru staðreynd á sama tíma og bankastarfsmanni á gólfinu sem lendir í umferðarslysi er sagt upp án nokkurrar miskunnar. Sama má segja um litla bankamanninn sem vinnur það sér eitt til sakar að búa á röngum stað á landinu. Hann má fjúka í nafni hagræðingar en topparnir sitja óhreyfir og bólgna. Skeina sig á ofurgróðanum. Kannski aftur farnir að éta gull.

Það er kaldhæðnislegt að bankarnir, þeir sem áttu ásamt vondum stjórnmálamönnum meginsök á efnahagshruninu sem þeytti burt lífsbjörgum tugþúsunda Íslendinga, hafi allt frá svokallaðri \"endurreisn\" makað krókinn, grætt á tá og fingri, á sama tíma og þolendur berjast margir hverjir enn í bökkum. Það er hinn þrautpíndi íslenski almenningur sem með blóði sínu, tárum og svita fær ekki þann hluta af kökunni sem almenningi ber. Enn eina ferðina er vitlaust gefið, svo vitnað sé í Stein Steinarr.

Eftir hrun var kallað eftir jöfnuði, réttlæti og siðbót. Niðurstaðan sjö og hálfi áru síðar er að við búum við ráðherra sem kallar skattsvik og kennitöluflakk nýsköpun. Ráðherrann vill fyrir vikið ekki ráðast að einu helsta meini viðskiptalífsins hér á landi, sami ráðherra vill heldur ekki gera neitt til að afla sértekna af erlendum ferðamönnum, kannski af því að svoleiðis verk hafa ekki verið talin auka líkur á endurkjöri, ekki með beinum hætti. Er þó brýnt að útvega fé til að auka öryggi ferðamanna sjálfra, styrkja okkar innviði, viðhalda auðlindinni óspjallaðri, sem laðar fólk til landsins og glæðir svo sannarlega líf okkar sem búum hér allan ársins hring, hinni íslensku náttúru. Þessi ráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, var aðstoðarmaður Geirs Haarde áður en Ísland hrundi. Henni var verðlaunaður hrunferillinn með því að Suðurnesjamenn kusu hana fyrst sem þingmenn og síðar varð hún ráðherra. Yfirmaður hennar í eigin flokki, fjármálaráðherra Bjarni Ben, hefur reynst afar tregur til að gera það sem þarf til að ráðast að skattsvikum. Þetta er landið okkar. Landið sem nú hefur eftir hrun fært bönkunum 500 milljarða króna gróða eftir hrun.

Bankamenn tala digurbarkalega og með mikilli ábúð þegar fjölmiðlamenn taka við þá viðtöl um ofsagróðann núna. Tala eins og þeir séu guðs útvaldir. Kannski er aðeins ein stétt atvinnurekenda sem einnig hefur vanist því að líta á sig sem guðs útvalinn hóp hér á landi. Sá hópur er íslenskir útgerðarmenn. Þeir hafa samtryggt eigin gróða með gjafakvótum og nánast einkarétti á að sjúga sameiginlega auðlind landsmanna, fiskimiðin. Skila mætti tugum milljarða inn í almannasjóði ef gjaldtaka væri í samræmi við ávinning stærri útgerða. En allt lýtur að einu. Samfélagslega ábyrgð skortir bæði í útveginn og bankareksturinn. Og kannski mætti svipað segja um efnahagsstefnuna í heild.

Hugmynd Frosta Sigurjónssonar um samfélagsbanka, sem er í raun sama hugsun og einkenndi sparisjóðina á árum áður áður, nýtur vinsælda vegna þess að þjóðin áttar sig á að það þarf enga snillinga til að hlunnfara íslenskan almenning eins og verið hefur. Það þarf bara ofurvexti, verðtryggingu dauðans og góðan slatta af hroka til að græða á íslenskum bankarekstri í því verndarumhverfi sem umlykur bankana sjálfa. 500 milljarðar króna liggja enda í valnum. 500 milljarðar króna hafa færst úr vösum almennings og minni fyrirtækja í bankana sem hagnaður. Það má að hluta skýra með þeirri skömm Steingríms J. Sigfússonar og og félaga í vinstri stjórinni að heykjast á að ráðast að rótum spilltra fjármálakerfa.

Það er ekki bara óréttlátt að vera til á Íslandi. Maður getur hreinlega orðið kolvitlaus á því. Þeir sem tala fyrir róttækri uppstokkun, bæði á bankakerfinu sem og í útveginum gætu gerð samfélaginu mikið gagn á næsta kjörtímabili. Vel þarf að manna þann hóp og passa upp á að fulltrúar gangi erinda almennings, ekki þeirra sem halda almenningi í herkví. Það þarf að snúa blaðinu við og það er vel hægt, landið er ríkt af mannviti, sköpun og auðlindum. Fyrsti dagur í bata verður þegar þjóðin áttar sig á að það ætti aldrei að vera náttúrulögmál að hagvöxtur hér á landi sé aðeins fyrir útvalda.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)