Sólveig Andrea Jónsdóttir innanhússarkitekt verður hjá Sjöfn Þórðar í þættinum Matur & Heimili í kvöld:
Eitt af skemmtilegustu verkefnunum sem innanhússarkitektar fá er að fá hanna eign sem á að taka í gegn frá grunni í samráði við húsráðendur og upplifa heildarútkomuna þar sem persónulegur stíll húsráðanda skín í gegn. Sólveig Andrea Jónsdóttir innanhússarkitekt fékk eitt slíkt verkefni í hendurnar árið 2016 og útkoman er hin glæsilegasta. Um er að ræða stórfenglega loft íbúð við Hverfisgötuna á annarri í hæð í fallegu húsi sem áður var starfrækt kaupfélag. Sjöfn Þórðar fer í innlit með leiðsögn Sólveigar Andreu í þessa stórglæsilegu loft íbúð sem stundum er kölluð New York loft íbúð, sem er allt í senn töff, rómantísk, hlýleg og sveipuð dulúð þeirra sem þar búa.
Myndir Sigtryggur Ari Jóhannsson ljósmyndari.
Hjónin sem eiga íbúðina keyptu hana árið 2016 eftir að hafa haft augastað á henni í stuttan tíma. Þau kolféllu fyrir lofthæðinni og stóru gluggunum sem setja sterkan svip á rýmið og staðsetningin heillaði hjónin ennfremur þar sem Hverfisgata var í enduruppbyggingu og mannlífið, kaffi- og veitingahúsamenningin iðaði á lífi. Hverfisgatan hefur tekið stakaskiptum og húsin sem þar standa hafa hver sitt hlutverk. Þau ákváðu að taka íbúðina alla í gegn frá grunni og fengu Sólveigu Andreu til að sjá um hönnunina í samráði við þau og hafa umsjón með framkvæmdinni.
Myndir Sigtryggur Ari Jóhannsson ljósmyndari.
Sjöfn fer yfir hönnunarferlið með Sólveigu Andreu og fær innsýn í heimilisstíl húsráðenda. „Þegar ég fæ hönnunarverkefni eins og þetta byrja ég á því að hitta eigendur eignarinnar og fara yfir þeirra hugmyndir. Húsráðendurnir sem hér búa eru með sterkan persónulegan stíl, eru smart og mikið smekkfólk þegar kemur að því að velja innstokksmuni, liti, efnivið, tæki og tól,“ segir Sólveig Andrea og það er sést um leið og inn er komið að þarna búa fagurkerar sem hafa auga fyrir fallegri hönnun og list. Íbúðin er stórglæsileg, sveipuð dulúð og rómantík, hlýleg og líka töff og það má segja að hægt sé að kynnast persónuleika húsráðenda með því að njóta þess sem augu ber. Hlýir brúnir tónar á veggjunum í bland við hvítt, jarðlitir í innanstokksmunum og húsbúnaði, mottur á vel völdum stöðum, fallegar hlutir sem eiga sér sögu prýða heimilið, mikið af fallegum verkum á veggjum og íburðarmikil og klassísk húsgögn sem fanga augað. Hugsað er fyrir viðeigandi lýsingu í hverju rými, þar sem fagurfræðin og notagildið fara vel saman. Kristalsljósakrónur setja glæsilegan og sterkan svip á opna stofurýmið og falleg borðstofuhúsgögn frá Heimilum og hugmyndum setja punktinn yfir i-ið.
Myndir Sigtryggur Ari Jóhannsson ljósmyndari.
„Húsráðendur voru að sækjast eftir þessari loft íbúðastemmningu, opnu rými, leyfa loftunum að njóta sín í hráleikanum og leyfa veggjunum að vera ópússaðir og spartslaðir. Þau vildu halda upprunalegu gluggana og nýta dýptina á gluggakistunum. Þau vildu halda í þennan iðnaðarstíl og létu sérsmíða allar innréttingar og hurðar í stíl hjá Fagus í Þorlákshöfn,“ segir Andrea Sólveig og er ánægð með heildarmyndina á hönnun á öllum innréttingum og gólfefnum sem flæða um allt rýmið.
Myndir Sigtryggur Ari Jóhannsson ljósmyndari.
Meira um hönnunina og lokaútkomuna á þessari glæsilegu loft íbúð í þættinum í kvöld. Sjón er svo sannarlega sögu ríkari.
Þátturinn Matur & Heimili verður á dagskrá í kvöld klukkan 20.30 og er að jafnan ferskur, fjölbreyttur og með persónulegum blæ.