Innlit í sælkeraeldhús þar sem ilmurinn er svo lokkandi

Oftast er það svo að hjarta heimilisins slær í eldhúsinu. Þar fara fram ánægjulegustu samverustundirnar og fjölskyldur og pör njóta þess að töfra fram sælkerarétti í ýmsu formum og gerðum. Það er ávallt spennandi og gaman að læra meira og prófa nýja hluti ekki síst að læra bestu eldhúsráðin fyrir eldamennskuna og baksturinn. Í hjarta miðborgarinnar er kennslueldhúsið Salt Eldhús sem er sælkera eldhús þar sem boðið er uppá skemmtilegar, matartengdar upplifanir með gagnvirkri kennslu, fræðslu og kynningum sem er kærkomið fyrir marga sem vilja fleiri matartengdar upplifanir.

Sjöfn Þórðar heimsækir Sigríði Björk Bragadóttur matreiðslumann, matgæðing og framkvæmdastýru hjá Salt Eldhús, sem er ávallt kölluð Sirrý, og fær innsýn í starfsemina þar á bæ. Sirrý er ástríðu kokkur og hefur haft dálæti af matargerð og bakstri frá því að hún man eftir sér. „Matreiðsla og bakstur eru mín ástríða og áhugamál og það eru forréttindi að geta gert það að ævistarfi og fengið að láta ástríðuna blómstra hér í Salt Eldhúsi,“ sagði Sirrý og er alsæl með staðsetninguna og aðstöðuna sem þau hafa uppá að bjóða. Sirrý er jafnframt eigandi Salt Eldhús ásamt Sigurði Grendal Magnússyni.

„Hingað koma margs konar hópar sem vilja læra að elda meira og sérstaklega vinsælt er að prófa nýja rétti frá öðrum menningarheimum. Langvinsælasta námskeið okkar er indversk matargerð,“ segir Sirrý aðspurð og bætti því jafnframt við að þar væri ánægjulegt að sjá hve mikið að ungu fólki kemur til þeirra.

Með haustinu koma nýir straumar í eldhúsinu og lokkandi ilmur og sælkera brauðréttir heilla bragðlaukana. Þessa dagana er Sirrý mikið í brauðbakstri og er prófa sig áfram í alls konar sælkerabrauðréttum og ljúffengum brauðum sem seðja bragðlaukana með góðri útkomu. Þegar Sjöfn bar að garði tók á móti henni lokkandi ilmur af nýbökuðu brauði með ómótstæðilegri fyllingu og Sjöfn fær Sirrý til að svipta hulunni af leyndarmálinu bak við þennan lokkandi ilm. Sirrý var nýverið í bresku sælkeraborginni Bath þar sem hún stundaði nám í brauðbakstri í heila viku hjá frönskum bakara þar sem brauð var bakað og snætt frá morgni til kvölds. Í vetur geta þeir sem vilja, fengið að njóta þekkingar og reynslu Sirrýjar í brauðbakstri í sælkera eldhúsinu Salt Eldhús og bætt við hæfileika sína til töfra gesti sína upp úr skónum með brauðbakstri. „Matreiðsla og bakstur er þannig að maður er alltaf að læra eitthvað nýtt og bæta við þekkinguna,“ segir Sirrý og hefur nú bætt við sig þekkingu í ýmis konar brauðbakstri.

Áhugavert og lokkandi innlit í eldhús á dagskrá í kvöld þar sem matarástin fær að blómstra.

Þátturinn Fasteignir & Heimili verður á dagskrá í kvöld klukkan 20.30 og er að jafnan ferskur, fjölbreyttur og með persónulegum blæ.