Innistæðulaus ávísun að baki skynsamlegri samgöngustefnu

Ríkisstjórnin og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa gert með sér sáttmála um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Sáttmálinn geymir skynsamlega og hófsama stefnu um uppbyggingu mikilvægra innviða. En miðað við fimmtán ára framkvæmdatíma er lýsir sáttmálinn hins vegar ekki stórhug.

ÁÆTLUNIN HANGIR Í LAUSU LOFTI JAFN LENGI OG FJÁRMÖGNUNIN

Gallinn við þessa gjöf Njarðar er aftur á móti sá að engar ákvarðanir hafa verið teknar um fjármögnun veigamikils hluta hennar. Í stað þess er kjósendum sýnd innistæðulaus ávísun. Raunverulegar ákvarðanir um fjármögnun á að taka síðar.

Þar til sú stund rennur upp er sáttmálinn bara sameiginleg viljayfirlýsing. Framkvæmd stefnunnar hangir í lausu lofti jafn lengi og fjármögnunin hangir í lausu lofti.

Samgönguáætlanir ríkisins hafa oft verið kynntar með þessu lagi. Fyrir þremur árum samþykkti Alþingi til að mynda ófjármagnaða samgönguáætlun í einingu andans sautján dögum fyrir kosningar. Og svo var skorið niður. Ég er ekki að spá því að nýi sáttmálinn endi þannig. En eins og málið er vaxið í dag er ekkert sem segir að þetta sé meira alvöruplagg.

EKKERT SAMKOMULAG LIGGUR FYRIR UM FJÁRMÖGNUNARLEIÐIR

Flest bendir til að innan ríkisstjórnarflokkanna sé ekkert samkomulag um leiðir til þess að fjármagna verkefnið. Ekkert samkomulag er milli ríkisins og sveitarfélaganna um þetta lykilatriði. Verkalýðshreyfingin heldur því svo fram að sumar þeirra lauslega reifuðu hugmynda um fjármögnun sem fylgja sáttmálanum stangist í grundvallaratriðum á við kjarasamninga sem ríkið er aðili að.

Stefnumótunin í sáttmálanum er sannarlega mikið fagnaðarefni. Og mikilsumvert að ná sameiginlegri sýn á hugmyndafræðina að baki öllu malbikinu og múrverkinu. En hitt veldur miklum vonbrigðum að fjármálin skuli skilin eftir óleyst. Það er óábyrgt verklag.

MÁLEFNAGRUNDVELLINUM KIPPT UNDAN MINNIHlUTA SJÁLFSTÆÐISMANNA  Í BORGARSTJÓRN

Formaður Miðflokksins segir að með þessum sáttmála hafi Sjálfstæðisflokkurinn tekið að sér að fjármagna kosningaloforð Samfylkingarinnar. Það er ekki alls kostar rétt: Á þeirri hlið málsins er ekki tekið.

En hitt er rétt að með þessu samkomulagi viðurkennir Sjálfstæðisflokkurinn þá hugmyndafræði sem Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og VG hafa talað fyrir í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Hún hefur verið studd af sjálfstæðismönnum sem eru í meirihluta í sveitarfélögunum umhverfis Reykjavík en sætt harðri andstöðu sjálfstæðismanna í minnihluta borgarstjórnar Reykjavíkur og Morgunblaðsins.

Með þessu samkomulagi er málefnagrundvellinum kippt undan minnihluta sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur sem helst hefur byggst á því að vera á móti borgarlínu. Það er merkileg pólitísk hlið á málinu.

FÉLAG Í ARMSLENGDARFJARLÆGÐ FRÁ PÓLITÍSKRI ÁBYRGÐ

Samkomulagið gerir ráð fyrir því að stofnað verði sérstakt félag um þessar framkvæmdir. Það fær heimildir til lántöku og gjaldtöku. Engin lýsing fylgir þó hvernig pólitískri og fjármálalegri ábyrgð þessa félags verður háttað.

Þetta er alvarleg brotalöm.

Félag sem stofnað var um Hvalfjarðargöngin stóð sig vel. En það eru líka önnur og nýlegri dæmi sem ekki er unnt að horfa framhjá.

Um jafn mikilvæga og þarfa framkvæmd eins og Vaðlaheiðargöng var stofnað gervifélag þar sem pólitískri ábyrgð þáverandi fjármálaráðherra var komið fyrir í armslengdarfjarlægð.

Sorpa er svo annað dæmi sem snýr að sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt nýlegri skilgreiningu er hluti launa bæjarstjóranna sex og borgarstjóra vegna meiri ábyrgðar en aðrir bera. En sú ríka ábyrgð er líka í armslengdarfjarlægð frá því félagi eins og í tilviki fjármálaráðherra.

Það er auðvitað ekki ætlunin að þetta verði gervifélag án ábyrgðar. En það vantar eitthvað í samkomulagið til þess að sannfæra fólk um að þetta verði öðruvísi.