Veitingastaðurinn Monkeys opnaði síðla sumars á síðasta ári í stórglæsilegu húsnæði í hjartagarðinum við Klapparstíg. Hönnunin á staðnum er bæði skemmtileg og ævintýraleg þar sem hlýleikinn og frumskógurinn er í forgrunni. Sjöfn Þórðar heimsækir staðinn í þættinum Matur og Heimili og hittir þá félaga Gunnar Rafn Heiðarson veitingastjóra og Snorra Grétar Sigfússon yfirkokk staðarins en báðir eru þeir meðal eigenda og fær innsýn í hönnun staðarins og matargerðina.
Ævintýraleg upplifun er að koma inn á Monkeys og aparnir eiga sinn stað í frumskóginum sem umlykur staðinn.
„Þegar við ákváðum að taka þennan stað eftir að hafa skoðað hann nokkru sinnum ákváðum við strax að þétta hann frekar og auka hlýleikann,“segir Gunnar og bætir því við að þeir hafi skipt honum upp í tvö hólf, Kokteilabarinn og veitingastaðinn. „Við vorum mjög stórhuga og með margar brjálæðislegar hugmyndir þegar kom að því að hanna staðinn og ákveða þemað svo við fengum til liðs við okkur Leif Welding til sjóða saman hugmyndir okkar og halda okkur á jörðinni,“segir Gunnar og er ánægður með útkomuna.
Þegar komið er á Kokteilbarinn er í raun boðið uppá heimsreisu, ferð kringum hnöttinn þegar kemur að úrvali í drykkjarföngum og kokteilagerðinni. „Við vildum ekki festa okkur í einhverju sérstöku heldur bjóða uppá ferðalag um heiminn þegar kemur að kokteilagerðinni.
Matargerðin er hin frumlegasta og ýmislegt er í boði sem ekki hefur sést áður hér á landi. „Matseðillinn er svolítið framandi og öðruvísi heldur en fólk á að venjast í matarflórunni hér á landi,“ segir Gunnar.
„Smáréttir eru aðalsmerki staðarins á matseðlinum og innblásturinn kemur úr því sem kallað er nikkei-matargerð þar sem japanaskir og perúskir straumar mætast með ævintýralegri útkomum,“segir Snorri og bætir við að hún eigi uppruna sinn að rekja til seinni hluta nítjándu aldar og varð til þegar japanskir innflytjendur byrjuðu að setjast að í Perú. „Þá runnu saman japanskar og perúskar matarhefðir saman og útkoman var það besta úr þeim báðu.“
Missið ekki af ævintýralegri heimsókn Sjafnar á Monkeys í kvöld í þættinum Matur og Heimili á Hringbraut.
Þátturinn er frumsýndur klukkan 19.00 og fyrsta endursýning er klukkan 21.00.
.