Ingvi Hrafn vill leyfa dánaraðstoð á Íslandi: Fullt af fólki „vilji fá aðstoð við að binda enda á líf sitt“

Ingvi Hrafn Jónsson fjölmiðlamaður hvetur nú Íslendinga til að taka upp löggjöf um dánaraðstoð. Bróðir Ingva, Jón Örn Jónsson, þáði slíka aðstoð í Kanada, þar sem hún er leyfileg, í vor en hann hafði ólæknandi sjúkdóm. Morgunblaðið greindi frá þessu í gær.

Ingvi hvetur til þessa ásamt mágkonu sinni, eiginkonu Jóns Arnar, Guðrúnu Mjöll Guðbergsdóttur. Slík lög eru sniðin að fólki sem er með langt gengna og ólæknandi sjúkdóma sem vill fá að kveðja þennan heim með reisn og vera ekki upp á aðra komið.

„Ég er ekki í nokkrum vafa um að hópur fólks myndi vilja hafa þennan valkost – að fá aðstoð við að binda enda á líf sitt,“ sagði Ingvi Hrafn í Mogganum í gær. „Ég er sannfærður um að hún [dómsmálaráðherra] myndi taka þessari umræðu með opnum huga.“