„Þetta er nú ljóta klúðrið. Mistök eru gerð á einum talningastað, nokkur atkvæði misleggjast og heil hringekja fer af stað um land allt,“ skrifar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir um stóra talningamálið í Norðvesturkjördæmi.
Bogi Ágústsson, fréttamaður vekur sjálfur athygli á færslu Ingibjargar á Facebook. Ingibjörg segir að í þessum kosningum hafi berlega komið í ljós hversu brýnt er að breyta kosningalöggjöfinni og leiðrétta misvægi atkvæða milli kjördæma og flokka og breyta framkvæmd kosninga.
„Hvers vegna í ósköpunum er verið að forfæra atkvæði frá kjörstað og telja þau öll á einum stað í hverju kjördæmi? Því ekki að telja fyirr opnum tjöldum og gefa almenningi kost á að fylgjast með?“ spyr Ingibjörg Sólrún.
Hún segir að tryggja þurfi öryggi og eftirlit en enga þörf á þeirri leyndarhyggju sem verið hefur í málinu. „Hún tefur og þvælist fyrir eins og komið hefur í ljós.“
Bogi tekur undir
Bogi Ágústsson tekur undir með Ingibjörgu.
„Það er margt að í framkvæmd kosninga á Íslandi, það er óþarfi að kjörstaðir séu opnir í 13 klukkustundir á frídegi. Það er fáránlegt að aðeins skuli talið á einum stað í hverju kjördæmi og endurskoða þarf reglur um utankjörfundaratkvæði.
Alvarlegast er þó hið óþolandi mannréttindabrot að atkvæði sumra vegi tvöfalt.“