Inga Sæland, þingmaður og formaður Flokk fólksins, er nýkomin heim frá Bandaríkjunum en hún segist hafa fyllt þjóðarstolti er þingmenn heimsóttu Arlington.
„Ég, eins og háttvirtur þingmaður Halla Signý Kristjánsdóttir benti hér á áðan, var svo lánsöm að fara til Bandaríkjanna á vegum þingsins þar sem við fengum að heimsækja Sameinuðu þjóðirnar ásamt svo mörgu öðru. Við vorum fimm saman í hóp, frábær hópur, og ég vil þakka þeim fyrir frábæra samveru og hvet þau öll náttúrlega til að ganga í Flokk fólksins, eðli máls samkvæmt,“ sagði Inga Sæland á Alþingi í dag.
„En það sem vakti ekki bara athygli mína heldur fyllti mig af gríðarlega miklu stolti var þegar við heimsóttum við Arlington, rétt við bæjarmörkin á Washington, Kerecis, alíslenskt fyrirtæki sem var stofnað árið 2013, fyrirtæki sem framleiðir afurðir byggðar á affrumuðu þorskroði sem hafa jákvæð áhrif á frumuvöxt og eru notaðar til þess að græða sár, t.d. brunasár, legusár og ekki síst núna sár sem koma af völdum sykursýki, lífsstílssjúkdóma sem fara vaxandi í heiminum. En það sem ég vildi benda á, virðulegi forseti, er að markaðssetningin fyrir okkar frábæru afurð, sem framleidd er eingöngu á Ísafirði, fer fram í Bandaríkjunum í dag og framleiðslan bar 32 milljóna dollara hagnað árið 2020 og 74 milljóna dollara hagnað árið 2021.“
„En afurð þessa fyrirtækis, sem er nú metið á 600 milljónir dollara, er ekki tekin í fangið á Íslandi. Hún er of dýr. Venjulegur plástur skal duga fyrir ykkur, Íslendingar. Þetta er okkar vara, það vinna 388 einstaklingar hjá þessu glæsilega fyrirtæki og ég verð að viðurkenna að hefði ég ekki séð það með eigin augum þá hef ég aldrei áttað mig á því hversu glæsilegt það er. Vöxturinn er hraður frá því fyrir fimm árum síðan en þá var einn einstaklingur í kjallaraíbúð heima hjá sér með eina tölvu en .það eru 388 starfsmenn í dag, fyrirtækið er búið að flytja fjórum sinnum og er núna í glæsilegum húsakynnum í Arlington,“ sagði Inga Sæland að lokum.