Inga Sæland, þingmaður og formaður Flokks fólksins, er þekkt fyrir flest annað en að láta vaða yfir sig. Inga hefur staðið í ströngu á Facebook-vegg Páls Braga Kristjónssonar, framkvæmdastjóra til fjölmargra ára eftir að Páll gerði sér mat úr viðtali við Ingu sem birtist í Mannlífi í maímánuði.
Í viðtalinu lýsti Inga Sæland meðal annars lífinu á Alþingi en auk þess lýsti hún sjálfri sér sem „tilfinningaríkum mannvini“. Páli Braga fannst þetta skjóta skökku við miðað við önnur ummæli hennar í sama viðtali. Hann segir: „Í sama viðtali segir hún um starfsfélaga sína þetta: „Því miður eru stjórnmálamenn gegnumheilt miklir lygarar“. Þá segir hún einnig: „Ég hef aldrei vitað annan eins vinnustað og þingið, það er eiginlega alveg fáránlegt.“
Páll Bragi klykkti svo út með þessum orðum: „EYKST NÚ VIRÐINGIN?“
Óhætt er að segja að færslan hafi vakið talsverð viðbrögð og blandar Inga sér sjálf í umræðurnar. Einn segir að ummæli Ingu séu ekki beint vinaleg en því svarar Inga: „Þau eru sönn, er það ekki nóg? Vantaði svikarar líka sem ljúga sig inn á þing á fölskum loforðum. Ég þarf ekki að vera vinur þessa fólks, er það? Ég vil hjálpa og vernda þá sem þetta fólk er að níðast á. Það er mannvinurinn í mér.“
Svavar Gestsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, spyr – og beinir orðum sínum að Ingu. „Af hverju er hún að leggja þetta á sig aumingja manneskjan?“
Inga svarar með þessum orðum: „Aumingi er ég ekki og hef aldrei verið, Svavar Gestsson.“
Svavar segir að honum sé það alveg ljóst en bendir á að hann hafi fundið til með henni fyrir að „þurfa að standa í þessum ósköpum.“ Inga hefur lítinn húmor fyrir kaldhæðni Svavars. „Það þarf ekki að finna til með mér í þínu háði, kæri Svavar, sem hefur nú ýmsa fjöruna sopið sjálfur, ekki satt?“ Svavar svarar athugasemd Ingu ekki efnislega og segir einfaldlega: „Gangi þér vel!“ Og Inga sendir Svavari einnig vinalega kveðju: „Takk sömuleiðis.“
Jón Magnússon, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi Alþingismaður, spyr í þræðinum: „Í hverju lýsir mannvinátta hennar sér í öðru en gaspri?“ Inga Sæland telur að Jón sé þarna að kasta steinum úr glerhúsi og svarar að bragði: Ja hérna, þetta kemur úr hörðustu átt, svo ekki sé fastar að orði kveðið. A..ha....ha....ha....ha.“