Inga og freyr hafa reynt að eignast barn í fjögur ár – álag á sambandið að glíma við ófrjósemi: „við vitum ekki hvenær okkar tækifæri kemur“

Inga Jóna Jónsdóttir hefur verið í sambandi með Frey í yfir sjö ár. Bæði hafa þau alltaf vitað að þeim langi til þess að eignast börn í framtíðinni en voru þau alltaf að bíða eftir rétta tímanum.

„Árið 2014 fluttum við til Noregs, byrjun 2015 grunar mig að ég sé ófrísk vegna þess að ég var rúmlega tveim vikum of sein og ég er aldrei sein. Fékk alltaf neikvætt próf en var samt handviss um að ég væri ófrísk. Á þessum tveim vikum töluðum við mikið um barneignir, hvort við værum tilbúin. Vorum í nýju landi, langt frá fjölskyldu og vinum en urðum samt svo gífurlega spennt fyrir þessu nýju hlutverki. Ekkert varð úr þessu en við ákváðum á þeim tíma að byrja að huga að barneignum,“ segir Inga í einlægri færslu sinni á síðunni Lady.is sem hún gaf Hringbraut góðfúslegt leyfi til þess að fjalla um.

Segir Inga fyrstu mánuðina hafa verið mjög spennandi eftir að parið ákvað að byrja að reyna að eignast barn. Hún hafi verið deildarstjóri yfir barnadeild í verslun Next úti í Noregi og því handfjatlað minnstu flíkurnar, spennt fyrir komandi tímum.

\"\"

„Í sífellu voru að detta inn óléttu tilkynningar á facebook og ég fann fyrir svo mikilli gleði fyrir hönd verðandi foreldra, sama hversu mikið eða lítið ég þekkti viðkomandi.

Afhverju fá þau tækifæri en ekki við?

En rúmt ár leið og þetta var farið að taka verulega á, óléttu tilkynningarnar voru að verða erfiðari og erfiðari. Af hverju fá þau þetta tækifæri, en ekki við? Það var erfiðara að samgleðjast fólki þótt að maður reyndi það að sjálfsögðu. Það er alltaf gleðiefni þegar nýtt líf kviknar,“ skrifar Inga.

Árið 2016 flutti parið aftur til Íslands og ákváðu í kjölfarið að setja barneignirnar á bið á meðan þau voru að koma sér fyrir.

„Þetta getur tekið svo rosalega á sambandið og andlegu hliðina að það var mjög gott að taka smá pásu frá þessu og losna við þetta stress. Okkur hafði báðum grunað að eitthvað væri að, vorum alltaf á leiðinni að athuga það en ég held að hræðslan við staðfestinguna hafi yfirtekið það,“ segir Inga.

Árið 2018 eftir að parið hafði reynt að eignast barn í þrjú ár ákváðu þau að hafa samband við Livio.

„Mér fannst alltaf eins og það væri miklu meira mál að athuga stöðuna okkar, að við þyrftum jafnvel að fara erlendis en svo var ekki. Einn tölvupóstur og við vorum komin með viðtal, stuttu seinna fórum við bæði í skoðun. Og viti menn, það var ekkert alvarlegt að. Það var ákveðinn léttir að vita það að ekkert alvarlegt væri að sem væri að hindra óléttu. En á sama tíma skrýtið að ekkert gerðist, allan þennan tíma.“

Parið bókaði tíma í glasa/tæknifrjóvgun en ákvað samt að bíða í nokkra mánuði og fara í fleiri rannsóknir til þess að vera alveg viss um að ekkert væri að.

„Ég var búin að heyra mjög góða hluti um Guðmund Arason hjá Lækningu og bókaði tíma hjá honum. Eftir fyrstu heimsóknina hjá Guðmundi varð ég ótrúlega jákvæð fyrir þessu og mjög vongóð yfir að þetta myndi takast heima fyrir. Það var rosalega gott að tala við hann, hann útskýrir allt svo vel og hefur mjög góða nærveru. Hann bókaði mig í kviðarholsspeglun til að ganga úr skugga um að allt væri í lagi í leginu, það er ýmislegt sem sést ekki í sónarnum. Allt leit vel út, aðgerðin gekk vel og ég var sett á frjósemislyf.“

Reiði, sorg, streita, þunglyndi, kvíði og einangrun

„1 af hverjum 6 pörum glíma við ófrjósemi. Þetta eru svakalegar tölur. En þetta þýðir að við ættum öll að þekkja einhvern/einhverja sem eru að kljást við ófrjósemi. Þetta tekur svo rosalega á andlegu hliðina og á sambandið, fá neikvætt próf mánuð eftir mánuð. Fá spurningar frá fjölskyldu og vinum hvenær við værum næst en það sem hefur hjálpað okkur mest í þessu ferli er að opna á þetta. Segja okkar fólki frá erfiðleikunum, þá hætta spurningarnar að koma. Í staðinn finnur maður fyrir stuðningi frá fólkinu.


Og það sem kom okkur mest á óvart er að hversu algengt þetta er. Þegar við fórum að tala opinskátt um okkar vandamál við fólkið í kringum okkur þá byrjuðu fleiri að opna sig og deila með okkur að þau hefðu líka átt í erfiðleikum, fólk sem við höfðum þekkt í mörg ár, en það tala alltof fáir um þetta. Sem er vissulega skiljanlegt, þetta er svo ótrúlega persónulegt og mér líður stundum eins og ég sé að hleypa öllum inn í svefnherbergið okkar,“ segir Inga sem segir að sú ákvörðun um að opna sig um vandamálið hafi hjálpað þeim báðum gífurlega.

\"\"

„Þetta er búið að taka tíma og við vitum ekki hvenær okkar tækifæri kemur. Í fyrstu hélt ég að fólk yrði vandræðalegt að fá þetta svar, en það varð áhugasamara og sýndi stuðning.

En á meðan á þessu erfiða ferli stendur þá verðum við, sem par, að leggja okkur extra mikið fram í að hlúa að sambandinu. Þetta hefur svo ótrúlega mikil áhrif á mann. Vera dugleg að ræða hlutina, báðir aðilarnir eru að upplifa það sama en á mismunandi hátt. Samband tveggja aðila sem eru að upplifa ófrjósemi þarf að vera mjög sterkt til að þola þetta álag, ég held að það sé mjög auðvelt að leyfa þessu að eyðileggja samband. En við erum teymi og tökumst á við þetta verkefni saman og tölum saman.“

Segir Inga að þegar par fer að hugsa svona mikið um barneignir fari þau að rýna í öll einkenni og túlka þau sem óléttu.

„En einkenni óléttu í byrjun og einkenni blæðinga er mjög líkt. En maður fer að ímynda sér og er orðin handviss um að þetta sé mánuðurinn. En svo kemur neikvætt próf enn og aftur.

Ég er löngu búin að missa töluna á öllum neikvæðu óléttuprófunum og ég fann hvað þetta gat eyðilagt næstu dagana fyrir mér. Eins vont og það er að sjá neikvætt próf mánuð eftir mánuð þá má þetta ekki taka yfir lífið manns,“ segir hún.

Segist hún gefa sér tíma til þess að syrgja hvert neikvætt próf og hleypa öllum tilfinningum strax út í staðin fyrir að halda þeim inni í einhverja daga. Það hjálpi henni að halda áfram með daginn sinn.

„Sumum gæti fundist skrýtið að syrgja eitthvað sem var aldrei. En við erum að syrgja þann draum af því sem hefði getað orðið eitthvað,“ segir Inga og vonast hún til þess að með því að opna sig geti hún hjálpað öðrum pörum sem séu mögulega í sömu stöðu og þau.

„Það hjálpaði mér allavega mjög mikið að vita til þess að það væru fleiri þarna úti sem er í sömu stöðu.
Þú ert aldrei ein/n.“