Inga Lind með Omíkron: „Ég hélt að það væri óhætt að fara til útlanda“

Fjölmiðlakonan Inga Lind Karlsdóttir er nú í einangrun á heimili sínu eftir að hafa greinst með Omíkron-afbrigði kórónuveirunnar. Inga Lind sagði frá þessu í Síðdegisþættinum á K100 í gær og var fjallað um viðtalið á vef mbl.is í dag.

Inga Lind greindist á laugardag eftir að hafa komið til landsins frá New York í Bandaríkjunum.

„Ég er ein af þeim sem greindist við landamærin. Ég hélt að það væri óhætt að fara til útlanda. Fór til New York með Árna [Haukssyni] og vinafólki. Það var svo ofsalega gaman og þar er farið mjög varlega. Varlegar en hér,“ sagði Inga Lind í viðtalinu en hún smitaðist engu að síður af veirunni.

Rifjað var upp að Inga Lind hefði verið á umtöluðu villibráðarhlaðborði í Garðabæ í nóvember þar sem um hundrað manns smituðust. Inga Lind slapp þá en ekki núna. Hún er nú í einangrun í svefnherberginu sínu og hefur nóg fyrir stafni. Hefur hún meðal annar stytt sér stundir með því að pakka inn jólagjöfum.

Inga Lind er ekki með mikil einkenni og í rauninni bara með smá kvef.

Viðtalið við Ingu Lind.