Ingibjörg Sædís komst í hann krappan við gosstöðvarnar í Geldingadal í gær þegar hún fór úr hnjálið. Inga, eins og hún er kölluð, greindi frá óhappinu á Twitter og vakti færsla hennar mikil viðbrögð á samfélagsmiðlinum.
Inga hafði gert sér ferð að gosstöðvunum ásamt þremur vinum sínum og segir hún óhappið hafa komið til vegna fíflaláta með bananahýði:
„Við vorum aldeilis að grínast ég og Jökull, kærasti Kristrúnar vinkonu minnar, að henda bananahýði á gosið og láta það brenna og ég varð svo spennt yfir þessu gríni að ég bókstaflega kiknaði í hnjánum og fór úr lið,“ segir Inga og hlær.
Björgunarsveitarmaður kippti henni í lið
Inga segist áður hafa lent í því að fara úr hnjálið og telur líklegt að þetta hafi gerst vegna álags sem myndaðist á hnéð í göngunni í átt að gosstöðvunum.
„Ég sem sagt sneri mér eitthvað skringilega við þarna í hlíðinni og ég bara fer úr lið og dett á jörðina. Ég var svo óheppilega skorðuð að ég lá svona þannig að höfuðið sneri niður í brekkunni,“ segir Inga.
Hún segir samferðafólk sitt hafa brugðist hratt við og sóttu þau strax björgunarsveitarmenn sem komu innan skamms. Einn björgunarsveitarmaðurinn hjálpaði Ingu að kippa hnénu í lið og studdi hana í átt að tjaldi björgunarsveitarinnar Þorbjarnar þar sem hann batt um fótinn. Inga og Kristrún vinkona hennar fengu svo far með buggy-bíl björgunarsveitarinnar að bílnum sínum þar sem Inga var alls ekki í ástandi til að labba í einn og hálfan tíma eftir óhappið.
Inga ber björgunarsveitinni Þorbirni góða sögu og segir þau vinna frábært starf við gosstöðvarnar:
„Persónulega hef ég aldrei þurft á aðstoð björgunarsveitarfólks að halda en ég ber alltaf rosalega virðingu fyrir þessu starfi og því fólki sem að tekur þessa ábyrgð á sig. Þetta er bara svo óeigingjarnt starf hjá þessu fólki og bara svo ótrúlega aðdáunarvert af þeim að gera þetta af því það er enginn krafa á neinn um að fara í björgunarsveitina,“ segir Inga.
Hún segist núna vera heima að jafna sig uppi í rúmi með íbúfen innan handar til að lina verkina.