Ásjóna beggja stjórnarflokkanna er mjög löskuð um þessar mundir. Flokkarnir eru í viðvarandi ímyndarkrísu.
Sigmundur Davíð stendur í orðaskaki við fjölmiðla sem hafa ekki fengist til að viðurkenna að hann sé þjóðhetja og ofurmenni. Ritstjóri Fréttablaðsins setti ofaní við hann og minnti hann á sjálfstæði fjölmiðla og að hann ætti ekki að vera búinn að gleyma hlutverki þeirra frá því hann var sjálfur fréttamaður um stuttan tíma fyrir mörgum árum. Framsóknarflokkurinn liggur undir ásökunum um að vera með beinum eða óbeinum hætti á bak við kaupin á DV og tengdum fjölmiðlum sem hafa alla vega orðið býsna þjálir flokknum og formanninum. Steininn tók úr þegar DV birti forsíðuviðtal við Sigmund Davíð en blaðið fór þá í aldreifingu um land allt. Talið að útspilið hafi kostað 15 milljónir og menn velta því fyrir sér hver hafi komið með þá peninga. Viðtalið í DV þótti með þeim slepjulegri sem birst hafa lengi og því ekki furða þó grunur um eignaraðild styrkist við það.
Samkvæmt upplýsingum úr innsta hring Framsóknar eru menn þar á bæ í áfalli eftir að hafa séð niðurstöður skoðanakannana eftir útspilið þann 8. júní en það átti að hefja fylgi flokksins á flug. Fylgið er fast í 9 til 11% sem er hrun frá kosningum. Sigmundur Davíð er mjög upptekinn af því að útskýra það fyrir fjölmiðlum að hann láti skoðanakannanir ekki hafa nein áhrif á sig. Allir vita að það er rangt. Honum líður mjög illa með stöðuna þó hann segi kokhraustur að hann taka alls ekkert mark á skoðunum annarra. Ástandið veldur miklu stressi í flokknum enda geta einir 10 eða 12 af þingmönnum flokksins mátað sig út af þingi miðað við umrætt fylgi. Þar á meðal eru Vigdís Hauksdóttir, Frosti Sigurjónsson, Ásmundur Einar Daðason, Karl Garðarsson, Þorsteinn Sæmundsson og Sigrún Magnúsdóttir ráðherra.
Ímynd Sigmundar Davíðs er farin að kristallast með þjóðinni þannig að þarna sé á ferð hrokafullur og ofdekraður pabbastrákur sem kunni ekki að deila kjörum með þjóðinni.
Sjálfstæðisflokkurinn nýtur mun meira fylgis í skoðanakönnunum, yfirleitt kringum 25%. En það er engu að síður hræðilega lítið miðað við það sem áður tíðkaðist. Flokksforystunni líður illa með það og sér ekki fram á að það lagist.
Innan flokksins eru margir ósáttir við að ekkert hafi gerst í því að skera niður ríkisútgjöld. Guðlaugur Þór beitti sér mjög í niðurskurðarnefnd árið 2013 og vann mikið starf þar sem fram komu rúmlega 100 tillögur um sparnað og niðurskurð í ýmsum stofnunum og fyrirtækjum ríkisins. Nánast ekkert hefur verið gert með þessar tillögur. Sömu aðilar eru hræddir um að Framsókn muni gera kröfur um stóraukin ríkisútgjöld, einkum til notkunar úti á landi, þegar og ef skuldaminnkun ríkisins verður að veruleika í kjölfar áætlunar um lausn á málefnum slitabúa bankanna.
Það sem veldur einnig miklum áhyggjum hjá formanninum er hve illa félagar hans í ráðherraliðinu hafa staðið sig. Þau fengu sín tækifæri og hver er árangurinn þegar kjörtímabilið er hálfnað? Hanna Birna varð að hrökklast frá, Illugi Gunnarsson er stórlega laskaður eftir klúðursmál sín í tengslum við Orka Energy, Ragnheiður Elín þykir hafa verið einkar seinheppin á ráðherraferli sínum, einkum varðandi ferðamannapassamálið sem er algjört klúður. Þá þykir Kristján Þór Júlíusson hafa verið aðgerðarlítill og litlaus þegar átök hafa orðið um framtíð heilbrigðiskerfisins sem er komið á heljarþröm á hans vakt sem heilbrigðisráðherra.
Hanna Birna situr enn sem varaformaður, rúin trausti. Hún hefur ekki gefið annað út en að hún ætli að sækjast eftir endurkjöri. Vitað er að flokkseigendur vilja hana í burtu en það gæti orðið torsótt ef hún gefur kost á sér áfram á næsta landsfundi í október á þessu ári. Helstu stuðningsmenn hennar, þeir sem bjuggu hana til sem stjórnmálamann, vilja ekki að hún sleppi þessari stöðu í flokknum. Þar eru á ferð harðlínumenn eins og Björn Bjarnason, Kjartan Gunnarsson, Styrmir Gunnarsson og Hannes Hólmsteinn. Fljótlega mun skýrast hvort hún ætlar að berjast áfram eða játa sig sigraða.
Bjarni þarf að finna konu í stað Hönnu Birnu í varaformannsstólinn. Vandinn er sá að engar konur eru í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem geta talist hæfar því Bjarni vill Ragnheiði Ríkharðsdóttur greinilega ekki en hún hefur reynslu og hæfileika til að bera. Því gæti þurft að sækja varaformann út fyrir þingflokkinn annars er eins víst að Guðlaugur Þór Þórðarson, ritari flokksins, verði varaformaður. Það myndi gleðja ýmsa en alls ekki alla!
Ljóst er að Sjálfstæðisflokkurinn er nú fátækari af hæfum forystumönnum en verið hefur áður. Ekki er að sjá að neinir öflugir frambjóðendur séu innan seilingar þegar farið verður að velja á framboðslistana seint á næsta ári. Auðvitað eru margir sem gætu hugsað sér að komast á þing en enginn þeirra hefur persónufylgi, hvað þá pólitíska töfra. Þannig eiginleikar finnast nú varla í flokknum, ef formaðurinn er undarskilinn. Ekki glittir í fólk sem gæti styrkt forystuna.
Það eru erfiðir tímar framundan hjá Framsókn og Sjálfstæðisflokknum. Spennandi verður að sjá hvernig forysta þeirra reynir að vinna sig út úr vandanum. Ætli þeir sameinist ekki á endanum eins og Hannes Hólmsteinn lagði til á sínum og rökstuddi með því að báðir flokkarnir væru Framsóknarflokkar.