Illugi sagður víkja af ráðherrastóli

Mikið var skrafað um fyrirhugaða uppstokkun í ríkisstjórninni á göngum og kaffistofum á landsfundi sjálfstæðismanna sem lauk í gær. Heimildarmenn Hringbrautar staðhæfa að mikil umræða eigi sér stað innan flokksins um að breytinga sé að vænta um áramót. Hafa sumir leiðtoga flokksins gefið því undir fótinn í óformlegu spjalli.

Talið er að Ólöfu Nordal, „sem er komin heim“ eins og það var orðað um helgina eftir að hún fékk glimrandi kosningu í varaformannsembætti flokksins, verði ætluð aukin ráðherravöld. Nokkrir valkostir eru sagðir hugsanlegir. Einn þeirra er að Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem hefur þótt hafa staðið sig vel í að kyngja óánægju sinni með viðræðuslitin við ESB, fái einnig ráðherradóm. Þá er eftir því tekið að þótt það hafi komið fram í stefnuræðu Bjarna Benediktssonar formanns flokksins á föstudag, að ekki stæði til að kasta íslensku krónunni var um síðir á landsfundinum samþykkt tillaga um að skoðað yrði til þrautar að  taka upp erlendan gjaldmiðil sem kæmi í stað fyrir íslensku krónuna. Þetta er sagt til vitnis um að Ragnheiður sé ekki eyland í alþjóðapólitík flokksins, að stór hluti flokksmanna sé gegn þeirri einangrun sem Bjarni hefur talað fyrir undanfarið. Þá vakti athygli eins og visir.is hefur bent á að misræmi var í þeim orðum sem Bjarni sagði á fundinum og skrifaðri ræðu, þar sem formaður flokksins hjólaði ekki eins bratt í vígi sem gætu styggt framsóknarmenn fyrir framan flokksfélaga sína eins og hann hafði á einhverjum tímapunkti valið að gera. Landsfundurinn stóð ekki að samþykktum í landbúnaðarmálum sem hefðu velgt samstarfi stjórnarflokkanna tveggja undir uggum. Þetta er sagt benda til að áfram horfi Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur til samstarfs, enda sé mat manna að það gangi sumpart ágætlega.

Sjálfstæðismenn fái utanríkismálin?

Rætt er hvort Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur muni skipta á innanríkis- og utanríkismálum. Ef slík uppskipti koma til greina er talið kjörið að Ólöf Nordal verði utanríkisráðherra. Annars er rætt að hún taki við menntamálum af Illuga. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur sagt að staða Illuga hafi veikst vegna Orku Energy málsins. Munu mjög skiptar skoðanir með hvort Illugi eigi að halda ráðherratign áfram eftir fjármálavanda hans og meint hneykslismál. Heimildarmenn Hringbrautar segja óvarlegt að staðhæfa nokkuð um fyrirhugaðar hrókeringar en ef Illuga verði fórnað muni það ekki verða með gagnsæjum hætti eins og þegar Hanna Birna hrökklaðist úr ráðherraembætti vegna lekamálsins. Draumastaða er í huga margra að Ólöf verði utanríkisráðherra og komi til greina að Ragnheiður Ríkharðsdóttir verði menntamálaráðherra.  Einnig er talið mögulegt að Unnur Brá Konráðsdóttir verði innanríkisráðherra en hún hélt því volgu fyrir landsfund að bjóða sig fram til varaformanns sem þykir benda til að hún telji sig eiga aukinn metnað inni í flokknum. Talið er að Jón Gunnarsson þingmaður gæti tekið við iðnaðarráðuneytinu ef Ragnheiður Elín Árnadóttir fer út. Þetta er meðal þess sem skrafað var á landsfundinum um helgina. Bæta má við að Hringbraut bar þessar pælingar undir einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem sagði ekki hægt að neita því að sannarlega væru „miklar líkur á hrókeringum um áramót“.

Sumt fólk í frystinum

Eftir landsfundinn er sagt liggja fyrir að Hanna Birna Kristjánsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson eigi ekki séns á ráðherrastólum. Þótt landsfundargestir hafi risið úr sætum og þakkað Hönnu Birnu þykir hún hafa spilað illa úr sínum málum. Guðlaugur Þór er sagður hafa tekið skynsamlega ákvörðun er hann steig til hliðar áður en til kosningar kom milli hans og Áslaugar Örnu en talið var mikilvægt að ein ung rödd fengi brautargengi. Eigi að síður hafi Guðlaugur verið í krepptri stöðu, hann muni spila vörn en ekki sókn úr þessu en haldið hefur verið fram að Guðlaugur hafi verið stunginn í bakið eins og Hringbraut hefur sagt frá.

Einnig sveif yfir vötnunum við samantekt þessarar fréttar að landsfundarfulltrúum þyki eðlilegt að Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skipti á stólum í ljósi þess að framsóknarmenn mælast að jafnaði með um 10% fylgi – „þeir eru dvergur þarna úti miðað við fylgismælingar“ eins og einn landsfundafulltrúa orðaði það í samtali við Hringbraut. „En allir vita að það er ekki í boði,“ bætti hann við.

 (Fréttaskýring: Björn Þorláksson)