Illugi ekki sloppinn enn

Fjölmiðlar hafa undanfarið fjallað töluvert um stöðu Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, sem samkvæmt nýrri frétt Stundarinnar þáði 3ja milljóna króna lán frá Orku Energy. Illugi hefur ekki svarað spurningum fjölmiðla um málið í hálft ár. Það vekur athygli, því spurningarnar hafa miðað að því að auka gagnsæi í stjórnsýslu og leita svara við hvort tengja megi málið spillingu eða ekki. Ýmsir fjölmiðlar hafa bent á að Illugi hafi sem ráðherra eftir lánið tekið ákvarðanir sem mögulega megi tengja við þann akk sem hann hafði af láninu. Hann er sagður í mikilli vörn og mál hans hefur verið borið saman við afsögn Hönnu Birnu fyrir einu ári.

Sex ráðherrar sagt af sér vegna hneyksla

Þegar íslensk stjórnmálasaga hinna síðari tíma er skoðuð kemur á daginn að sex ráðherrar hafa sagt af sér vegna hneykslismála á fullveldistímanum. Mörgum ráðamönnum og þar á meðal ráðherrum hefur á sama tíma tekist að „sitja af sér storminn“ meðan bylgjur vandlætingar, ákalla og kröfur um afsögn eru ákafastar í samfélaginu. Eftir hrun kom fram krafa um gagnrýnni og sjálfstæðari fjölmiðlun hér á landi, m.a. í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Æ síðan hafa sumir blaðamenn gengið harðar fram í aðhalds- og eftirlitshluverki sínu gagnvart valdhöfum með almannahagsmuni í huga. Gefur verið haldið fram að án atbeina fjölmiðla hefði Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra aldrei þurft að segja af sér vegna lekamálsins en þar bar DV þungann og hituna þegar nærri lá að ráðuneytinu tækist að „svæfa“ málið.

Annað sem vekur athygli er að ákveðinn hvati hefur verið innbyggður í kerfinu vegna skorts á regluverki sem hefur orðið til þess að pólitíkusar móast við og fara hvergi þótt upp komi hneyksli.  Horft er til skorts á hefðum þegar pólitískt kjörnir fulltrúar hafa komist upp með að sitja af sér sjálfskapað óveður fremur en stíga til hliðar. Traust almennings á stjórnmálamönnum hefur iðulega borið mikinn hnekki þegar stjórnmnálamenn axla ekki ábyrgð á meintri spillingu sinni eða mistökum. Það eitt að vafi leiki á trausti skaðar lýðræðið, enda starfa pólitískt kjörnir fulltrúar í þágu almennings fjögur ár í senn. Teikn eru á lofti um að tímarnir séu að breytast og að það verði æ erfiðara fyrir stjórnmálamenn sem lenda í hneykslismálum að móast við, sitja áfram og svara ekki spurningum. Kröfur um nútímalýðræði standa gegn því.

Oftast tengt fjármunum

Morgunblaðið tók í janúar árið 2009 saman afsagnir ráðherra eftir að Björg­vin G. Sig­urðsson varð fimmti ís­lenski ráðherr­ann eft­ir full­veldis­tök­una 1918, til að segja af sér vegna deilna um embættisverk hans. Hinir voru Magnús Jóns­son, Magnús Guðmunds­son, Al­bert Guðmunds­son og Guðmund­ur Árni Stef­áns­son.  Svo aðeins sé litið til síðari tíma varð Albert Guðmundsson fjár­málaráðherra árið 1983 og síðar iðnaðarráðherra. Hann vantaldi á skatta­skýrslu tekj­ur árið 1983-1985, meðal þess voru greiðslur frá skipa­fé­lag­inu Haf­skipi, um 250 þúsund krón­ur sem framreiknað til dagsins í dag eru um 600.000 krónur. Morgunblaðið segir: „Al­bert var á sama tíma ráðherra fjár­mála og því yfir skatta­mál­um. Leiðtoga Sjálf­stæðismanna, Þor­steini Páls­syni fjár­málaráðherra, leist vafa­laust ekki vel á að fara í kosn­ing­ar um sum­arið með illa lykt­andi mál af þessu tagi á bak­inu og fékk Al­bert til að segja af sér.“ Afsögn Alberts var árið 1987.

Guðmund­ur Árni Stef­áns­son fé­lags- og trygg­inga­málaráðherra var í hópi yngstu leiðtoga Alþýðuflokks­ins, kemur einnig fram í úttekt Morgunblaðsins. Oft var rætt um hann sem arf­taka Jóns Bald­vins Hanni­bals­son­ar, þáver­andi ut­an­rík­is­ráðherra og leiðtoga Alþýðuflokks­ins. Mest gekk á út af starfs­lok­um Björns Önund­ar­son­ar trygg­inga­yf­ir­lækn­is árið 1993. Björn fékk greidd­ar þrjár millj­ón­ir króna vegna upp­gjörs á áunnu náms­leyfi gegn því að hann segði upp.

Meðal annarra hneykslismála sem komið hafa upp síðustu 40 árin í íslenskri stjórnsýslu má lesa á Wikipediu um áfengiskaupamálið árið 1988 þegar Jón Baldvin Hannibalsson og Magnús Thoroddsen forseti Hæstaréttar voru gagnrýndir harðlega fyrir að kaupa áfengi á kostnaðarverði til persónulegra nota á árunum 1987-1988. Magnúsi var vikið úr embætti af Halldóri Ásgrímssyni þáverandi dómsmálaráðherra til bráðabirgða vegna kaupa á rúmlega 2000 flöskum.

Árið 2001 sagði Árni Johnsen af sér þingmennsku. Hann var dæmdur í fangelsi í framhaldinu fyrir ýmis auðgunarbrot en sneri aftur á þing þrátt fyrir nokkurn fjölda útstrikana er hann bauð sig aftur fram.

Árið 2004 sagði Þórólfur Árnason segir af sér embætti borgarstjóra Reykjavíkur í nóvember 2004 eftir ásakanir um að hann hafi verið brotlegur í samráði olíufélaganna. Árið 2008 sagði Bjarni Harðarson segir af sér þingmennsku vegna mistaka við sendingu á tölvupósti sem átti að vera leynilegur og nafnlaus en fór vegna mistaka Bjarna til fjölmiðla.

Segja má svo að bankahrunið 2008 hafi verið eitt risastórt dæmi um vanhæfni stjórnmála- og embættismanna og kostaði þáverandi ríkisstjórn síðar völdin. Geir Haarde var síðar dæmdur sekur fyrir Landsdómi en margir töldu málaferlin og atkvæðagreiðslu þingmanna sem tóku ákvörðun um réttarhöldin pólitíska gjörð.

Lekamálið og eftirmál þess

Lekamálið hefur komist í kastljósið síðustu daga í ljósi þess að Hanna Birna Kristjánsdóttir hætti við að bjóða sig fram til varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Hún mun missa það embætti ofan á annað og dæmi eru um að flokkssystkini hennar telji að henni sé refsað fyrir að hafa stigið til hliðar en aðrir benda á að hún hafi sagt af sér allt of seint og þar liggi ógæfa þingmannsins. Þegar Mál Hönnu Birnu er borið saman við mál Illuga Gunnarssonar leið meira en heilt ár uns játning barst frá Gísla Frey Valdórssyni, aðstoðarmanni Hönnu Birnu, sem varð til þess að margt sem ráðherra hafði áður sagt um málið reyndist marklaust. Gísli Freyr hlaut refsidóm en mjög var horft til þess einnig að Hanna Birna hafði beitt lögreglustjóra óeðlilegum afskiptum þegar hann tók mál gegn henni til skoðunar. Samkvæmt umboðsmanni Alþingis voru afskipti ráðherra óeðlileg. Auk þess varð hún margsaga um málið. Í ljósi þess hve afsögn Hönnu Birnu dróst á langinn vaknar sú spurning hvort Illugi Gunnarsson hafi þrátt fyrir allt ekki enn bitið úr nálinni með að sleppa vegna Orku Energy málsins. Hann hafði áður komist í vanda, stigið til hliðar og komið aftur inn í stjórnmálaheiminn.  Spurningar hafa kviknað um fjárhagslegt hæði ráðherrans og bætist við annað sem reynst hefur Illuga erfitt á stormasömum ferli.

Munur á Íslandi og útlöndum

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði hefur sagt að íslenskir stjórnmálamenn ákveði almennt frekar að sitja á meðan pólitískt stormviðri geysar í kringum samanborið við kollega þeirra erlendis. Í því samhengi hefur visir.is rifjað upp að með því að biðjast lausnar frá embætti félagsmálaráðherra hafi Guðmundur Árni sagst hafa brotið blað í íslenskri stjórnmálasögu. Hann hefði tekið ákvörðun um að láta minni hagsmuni víkja fyrir meiri. Sagt af sér embætti án sakarefna og þrýstings eftir að hafa ráðfært sig við fjölmarga stuðningsmenn sína sem hefðu látið í ljós mjög misjafnar skoðanir á málinu.

Stjórnmálafræðingar túlka fyrri hneykslismál þannig að vandinn á Íslandi sé hve óskýrt sé hver eigi að knýja fram afsögn þeirra. Erlendis sé það skýrara, þá stígi oft flokksformaður eða forsætisráðherra þau erfiðu skref. Þetta tengist skorti á hefðum í innlendri stjórrnsýslu. Eftir því sem aðhald fjölmiðla verði meira og upplýsingar berist á leifturhraða vegna Internetsins sem gleymi engu sé þó staðreynd að æ erfiðara verði fyrir íslenska stjórnmálamamenn líkt og kollegar þeirra í elendum ríkjum að „standa af sér storminn“ á meðan hann gengur yfir eins og stundum hefur gefist vel fram til þessa.

Fæstir viðmælenda Hringbrautar úr stétt stjórnmálafræðinga og stjórnsýslufræðinga voru við gerð þessarar athugunar tilbúnir til að meta stöðu Illuga með opinberum orðum, enda er Illugi æðsti yfirmaður sumra þeirra, sem ekki einfaldar málið.

(Fréttaskýring: Björn Þorláksson.)