Ónefndur er einn pólitískur vinkill á þau ummæli forsætisráðherra að sú ákvörðun HÍ að leggja af íþróttakennaranám á Laugarvatni muni kalla á sérstök viðbrögð innan menntakerfisins. Hinn ónefndi vinkill er staða Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra. Hvernig forsætisráðherra hefur valtað yfir stefnu Illuga í málinu svo það sé orðað á mannamáli.
Illugi á samkvæmt lögum að setja stefnu menntamála en ekki forsætisráðherra. Inngrip Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um helgina mætti því túlka sem vísbendingu um annað hvort aukna kergju meðal ráðherra og harðari baráttu um yfirráð meðal valdaflokkanna tveggja. Eða að að Illugi eigi erfitt uppdráttar innan stjórnarinnar, a.m.k. gagnvart Sigmundi Davíð. Má rifja upp hvernig SDG hafði Illuga undir í svökölluðu Rúv-máli rétt fyrir jól og gerði þann síðarnefnda ómerking orða sinna.
Nokkrir blaðamenn hafa sent forsætisráðherra fyrirspurnir síðustu daga og vilja vita svör hans við áleitnum spurningum sem kviknað hafa í kjölfar þeirra ummæla SDG að nú yrði horft í auknum mæli út á land í eflingu menntamála. Lögfræðingar hafa bent á að stjórnvöld hafi lagaheimild til að auka hlut einnar menntastofnunar umfram aðra. Deilt er þó um siðferðislegt samhengi og sjálfstæði akademíunnar.
Heilu dagsverkin hjá jafnt leikum sem lærðum hafa sumsé síðutu daga farið í vangaveltur hvað SDG eigi við. Hafa þá allir eitthvað að iðja. Sumir sjá mikil tækifæri í orðum ráðherra fyrir landsbyggðirnar. Aðrir sjá hótun gagnvart HÍ, misbeitingu valds. Hefur verið bent á að Framsóknarflokkurinn sæki einkum fylgi sitt út á land.
Á meðan situr Illugi Gunnarsson í skugganum og fylgist með umræðu um málaflokk sem Illuga er sjálfum ætlað að stýra. Og varla er hægt að nota annað orð en kaldhæðni um að Illugi hafi nú verið kallaður til að skýra hvað Sigmundur Davíð eigi við.
(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni)