Hafa félagsmenn vr áhuga á því að borga 20 milljónir fyrir georg bjarnfreðarson?

Talið er að auglýsingaherferð VR þar sem Georg Bjarnfreðarson er endurvakinn kosti félagsmenn VR ekki minna en 20 milljónir króna. Spurningin er þessi: Hafa almennir félagsmenn VR áhuga á því að sameiginlegum sjóðum þeirra sé sóað í rugl af því tagi sem auglýsingaherferð VR er? Full ástæða er til að draga það stórlega í efa.

 Þyki mönnum talan 20 milljónir ótrúleg, þá þarf að hafa í huga að kostnaður við gerð svona auglýsinga er mikill og einnig þarf að greiða fyrir höfundarrétt á notkun persónu af þessu tagi. Þá eru birtingar á sjónvarpsstöðvunum ekki gefins, einkum er okrið mikið hjá RÚV þar sem auglýsingarnar hafa verið birtar. Ef eitthvað er, þá gæti þessi herferð kostað meira en 20 milljónir króna. Almennir félagsmenn verða að meta það hvort þeim þykir þetta bera vott um ráðdeild. Þeir geta svo sagt skoðun sína í stjórnarkosningum VR fljótlega á nýju ári.

Full ástæða er til þess að upplýst verði um kostnað af þessari herferð í anda krafna um gagnsæi og auknar upplýsingar um alla skapaða hluti.

Það má svo velta því fyrir sér hvort þessar auglýsingar skili árangri, hvort þær séu smekklegar, hvort þær séu sanngjarnar og hvort þær séu gott innlegg í samningaviðræður við Samtök atvinnulífsins sem eru viðsemjendur VR í kjaramálum. Um það má efast stórlega.

Svo virðist sem formanni VR, Ragnari Þór Ingólfssyni, sé verulega órótta um þessar mundir. Hann hefur spilað út nokkrum „trompum“ sem hafa snúist í höndum hans. Fyrst lagði hann til að líeyrissjóðum landsmanna yrði beitt með ósvífnum hætti í kjaraátökum. Það fékk engar undirtektir enda vilja sjóðsfélagar ekki láta skemma lífeyrisréttindi sín með óábyrgum aðgerðum fólks sem hefur ekkert yfir lífeyrissjóðunum að segja. Fjármálaeftirlitið snupraði formann VR með afgerandi hætti og þar með var allur vindur úr þessu vanhugsaða útspili hans.

Næst komst Ragnar Þór í fréttir vegna þess að hann vildi apa eftir uppreisnarfólki í París sem komið hefur saman að undanförnu og skartað gulum vestum. Þau átök hafa leitt til dauða nokkurra almennra borgara, slysa á fólki og eigantjóns. Ekki fékk þessi hugmynd heldur neinn hljómgrunn enda er hún óábyrg og hættuleg.

Þá kom rándýra auglýsingaútspilið sem hér er nefnt. Félagsmenn í VR munu meta hvort þeir vilja láta verja sjóðum sínum með þessu hætti og hvort þeim þykir þetta vera VR til framdráttar eða sómar. Því geta þeir svarað í stjórnarkjöri í febrúar á nýju ári.

Fljótlega skýrist hvort formaður VR missir tökin eða nær að róa sig niður.

 

Rtá.