Íhaldið á nesinu er komið í varnarbaráttu með tvo lista

Sjálfstæðisflokkurinn á Seltjarnarnesi hefur gert sér ljóst að meirihluti flokksins er fallinn. Þá er gripið til örþrifaráða með því að bjóða fram tvo lista á vegum flokksins, D og F lista.

Með því að bjóða fram lista öfgamanna til hægri með Skafta Harðarson í stafni, telja menn að leifarnar af Sjálfstæðisflokknum, D listi, geti náð betur inn á miðjuna og tafið flótta hinna frjálslyndu úr flokknum.

Flétta þeirra gengur út á að koma Skafta inn þannig að hann geti myndað meirihluta með þremur úr Sjálfstæðisflokki en þó þannig að Skapti yrði bæjarstjóri. Ásgerður Halldórsdóttir, fráfarandi bæjarstjóri, verður að sætta sig við það. Með Skafta á bæjarstjórastóli kæmu mun harðari áherslur gagnvart fólki. Það myndi einkum bitna á barnafólki, fjölskyldum og Gróttu en Skafti vill skera niður framlög til íþrótta-og æskulýðsstarfs.

Frjálshyggjumenn vilja lækka fasteignagjöld og skatta. Þeir vilja gæta hagsmuna hinna fáu og efnuðu; F fyrir ríka fólkið. Það er í anda frjálshyggjunnar sem lærimeistarinn Hannes Hólmsteinn hefur kennt þeim.

Listi Skafta er að mestu skipaður eldra peningafólki. Flestir eru um sextugt eða þaðan af eldri. Í öðru sæti er Ástríður Jónsdóttir eiginkona Hjartar Níelsen forstjóra Ísól hf. Hann er kunnur frjálshyggjumaður, aðdáandi Hannesar Hólmsteins og talinn til hirðar Davíðs Oddssonar. Hjörtur tók þátt í misheppnuðu  æfintýti með Óla Birni Kárasyni þegar þeir keyptu DV í blóma og afrekuðu að setja það á hausinn á mettíma undir forystu Óla Björns.

Ragnar Árnason fyrrverandi prófessor skipar fimmta sæti listans. Hann var á árum áður einn harðasti vinstrimaður landsins og gengdi ábyrgðarstöðum í Alþýðubandalaginu. Svo vatt hann kvæði sínu í kross og gerðist harðlínumaður innan Sjálfstæðisflokksins og sat fyrir flokkinn í bankaráði Seðlabankans.

Ólíklegt verður að teljast að þessi örvæntingarfulla flétta íhaldsins á Nesinu gangi upp. Íbúarnir eru engir bjánar. Þeir munu sjá í gegnum plottið.

Seltirningar vilja Skafta Harðsrson ekki sem bæjarstjóra. Svo einfalt er það.

Rtá.